Enski boltinn

Endurkoma Torres tefst vegna eldgossins í Eyjafjallajökli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fernando Torres.
Fernando Torres. Mynd/AFP
Rafael Benitez, stjóri Liverpool, ætlar ekki að nota Fernando Torres fyrr en að spænski framherjinn sé búinn að fara í gegnum frekari rannsóknir á Spáni.

Vandamálið er að eldgosið í Eyjafjallajökli hefur lokað allri flugumferð í Evrópu og Torres kemst ekki að hitt hnésérfræðinginn og því er eldgosið á Íslandi að tefja endurkomu hans í Liverpool-liðið.

„Við lentum í vandræðum með að finna flug fyrir hann en hann verður að fara að hitta sérfræðinginn," sagði Rafael Benitez.

„Hann vildi ná West Ham leiknum en það gæti orðið erfitt úr þessu. Það er allt í lagi með hann en getur ekki spilað fyrr en hann er búinn að fara í frekari skoðun," sagði Benitez.

„Við sendum hann með fyrstu vél sem fær fararleyfi til þess að fá staðfestingu að allt sé í lagi með hnéð," sagði Benitez.

Liverpool mætir West Ham í ensku úrvalsdeildinni á mánudaginn og á fimmtudaginn kemur er síðan fyrri undanúrslitaleikurinn á móti Atletico Madrid.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×