Innlent

Barist um orkuna

Þorlákshöfn. Sýnt þykir að samningar um kísilver í Þorlákshöfn nást ekki áður en forgangur sveitarfélagsins Ölfuss að orku Hverahlíðarvirkjunar rennur út í lok mánaðarins.
Þorlákshöfn. Sýnt þykir að samningar um kísilver í Þorlákshöfn nást ekki áður en forgangur sveitarfélagsins Ölfuss að orku Hverahlíðarvirkjunar rennur út í lok mánaðarins. Mynd/Rósa J.
Sýnt þykir að samningar um kísilver í Þorlákshöfn nást ekki áður en forgangur sveitarfélagsins Ölfuss að orku Hverahlíðarvirkjunar rennur út í lok mánaðarins. Kapphlaup gæti þá hafist milli kísilversins og álversins í Helguvík um hvort verkefnið verði fyrra til að tryggja sér orkuna.

Skrifað var undir samningsramma um kísilverið um miðjan febrúar en samkvæmt honum átti að ljúka viðræðum um orkusamning fyrir 15. apríl. Þessi dagsetning var sett inn til að tryggja að unnt yrði að ljúka endanlegum samningum fyrir lok maímánaðar en þá rennur út ákvæði um sérstakan forgang sveitarfélagsins Ölfuss á að fá 90 megavatta raforku fyrirhugaðrar Hverahlíðarvirkjunar til Þorlákshafnar.

Að sögn Hjörleifs Kvaran, forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur, þykir nú sýnt að ekki muni takast fyrir þann tíma að ljúka samningum um kísilverið. Hann segir viðræður þó hafa gengið vel. Samstarfaðilinn, kanadíska fyrirtækið Timminco, á hins vegar bæði eftir að tryggja sér fjármögnun og langtímasamning um sölu afurða, sem er forsenda þess að hann geti gert bindandi orkusamning til 20 ára. Bæði Orkuveitumenn sem og Hákon Björnsson, talsmaður kvísilmálmverkefnsins, eru þó bjartsýnir á að þetta takist. Menn haldi áfram undirbúningsvinnu af fullum krafti.

Norðurálsmenn, sem einnig vilja fá orku Hverahlíðar en til nota í álverinu í Helguvík, bíða á hliðarlínunni því 1. júní verður þeim hleypt að samningaborðinu á ný. Óvíst er hvort Norðurál verði þá tilbúið að skrifa upp á skuldbindandi orkusamning og gæti þá komið upp sú staða að álverið og kísilverið lendi í kapphlaupi um hvort verkefnið verði fyrra til að tryggja sér orkuna úr Hverahlíð. Eða eins og forstjóri Orkuveitunnar orðar það: Fyrstur kemur fyrstur fær, að því gefnu að menn séu tilbúnir að borga rétt verð fyrir orkuna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×