Lífið

Gefur út spennusögu um sjúkan heim útrásarvíkinga

Fyrsta bók Óskars Hrafns Þorvaldssonar, Martröð millanna, kemur út í lok mánaðarins. Höfundurinn segir að einhverjar persónur í bókinni séu byggðar á kynnum hans af útrásarvíkingum og fjölmiðlafólki.
Fréttablaðið/Anton
Fyrsta bók Óskars Hrafns Þorvaldssonar, Martröð millanna, kemur út í lok mánaðarins. Höfundurinn segir að einhverjar persónur í bókinni séu byggðar á kynnum hans af útrásarvíkingum og fjölmiðlafólki. Fréttablaðið/Anton
„Þeir sem hafa lesið bókina segjast þekkja hluti úr fari ákveðinna manna í ákveðnum persónum. Ég get svo sem ekki neitað því að þeir sem hafa verið í framlínu sveitar svokallaðra útrásarvíkinga gætu kannast við sig í þessari bók," segir Óskar Hrafn Þorvaldsson fréttastjóri.

Fyrsta bók Óskars kemur út í lok október á vegum Forlagsins, spennusaga sem hlotið hefur nafnið Martröð millanna. Óskar segir það ekki hafa verið sérstakt metnaðarmál að persónurnar væru byggðar á þjóðþekktum fyrir­myndum, en bætir við að efni­viðurinn hafi verið fyrir framan hann og persónurnar dragi dám af því.

„Þetta er bók um athafnir og örlög nokkurra útrásarvíkinga. Einn þeirra er myrtur og inn í söguna fléttast lesblindur útrásar­víkingur, siðblindur bankamaður, belgískir demantakaupmenn, rússneska mafían, súlustaðakóngur sem stígur ekki í vitið og seinheppinn leigumorðingi frá Litháen," segir Óskar þegar hann er beðinn að lýsa bók sinni. Óskar hefur starfað sem blaðamaður í um áratug og hefur oft vakið athygli fyrir störf sín. Hann hætti sem fréttastjóri Stöðvar 2 síðasta vor og sneri sér þá að skrifum. „Ég var búinn að ganga með þetta í maganum lengi, sagan hafði að einhverju leyti mótast í hausnum í langan tíma. Eftir að ég hætti á Stöð 2 hafði ég allt í einu fullt af tíma sem ég hafði ekki áður og byrjaði að skrifa. Laufey konan mín hjálpaði mér mikið og barði mig áfram. Án hennar hefði þessi bók aldrei komið út."

Óskar hefur í gegnum tíðina fjallað talsvert um íslenskt viðskiptalíf og útrásarvíkinga. Honum þótti því liggja beint við að nýta sér þá þekkingu sem hann býr yfir við bókarskrifin. „Þetta er það svið sem ég hef sinnt mest og fylgst hvað best með. Í bókinni er reynt að varpa ljósi á yfirgengilegan lífsstíl, óhóf og munað. Þetta er heimur sem fólk hefur fengið að gægjast inn í en þegar kafað er aðeins dýpra held ég að öllum verði ljóst að í þessum heimi er fólginn ákveðinn sjúkleiki."

Aðspurður segir Óskar að hann væri alveg til í að skrifa fleiri bækur, hann sé þegar með tvær aðrar sögur í kollinum. „En maður verður að hlusta á fólkið. Ef það skapast áhugi hjá fólki þá koma ábyggilega fleiri bækur, ef það þarf að brenna óselt upplagið þá pirra ég íslenska bókaunnendur líklega ekki meira," segir rithöfundurinn, sem tekur sjálfan sig ekki mjög hátíðlega: „Ég lít ekki á þessa bók sem epískt stórvirki. Stefnan var að búa til bók sem fólk gæti skemmt sér yfir og ég vona að það hafi tekist." hdm@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.