Innlent

Ósátt móðir segir einelti líðast í Vesturbæjarskóla

Erla Hlynsdóttir skrifar
Myndin tengist fréttinni ekki beint

Móðir tólf ára drengs með ódæmigerða einhverfu er afar ósátt við skólayfirvöld í Vesturbæjarskóla þar sem drengurinn var við nám. Hún segir að foreldrar í skólanum hafi beinlínis hvatt til eineltis gegn syni hennar án þess að yfirvöld skólans hafi skorist í leikinn.

Skólayfirvöld segjast ekki geta tjáð sig um mál einstakra nemenda en taka fram að þau leggja sig fram við að vinna gegn einelti.

Drengurinn er í 7. bekk og hefur verið greindur með athyglisbrest og ofvirkni, tourette og ódæmigerða einhverfu. Honum hefur gengið erfiðlega að aðlagast í skóla og er félagslega skertur. Frá sjö ára aldri hefur hann þurft að hafa stuðningsfulltrúa með sér í skólanum en móðir hans segir hann í raun eiga heima á sérdeild fyrir einhverfa. Afar illa hafi þó gengið að fá pláss fyrir hann á slíkri deild vegna langra biðlista og því stóð til að hann byrjaði í Brúarskóla nú í októberbyrjun.

Móðirin, Linda Berry, segir sögu drengsins á Facebook-síðu sinni og vitnaði Pressan í síðuna í morgun.

Stimpingar á skólalóð

„Sonur minn var að hefja sitt 7. skólaár og var skólasetning í Vesturbæjarskóla þann 23. ágúst. Þá var ekki búið að ráða stuðningsfulltrúa til þess að fylgja syni mínum. Mjög sennilega átti að taka hvern dag fyrir sig, þar til hann færi í Brúarskóla. Föstudaginn 27. ágúst fæ ég símtal frá aðstoðarskólastjóra Vesturbæjarskóla og mér sagt að það hafi komið til stimpinga á milli sonar míns og 3ja annara drengja. Mér er jafnframt tjáð að umræddir drengir, væru frá upphafi skólavikunnar búnir að vera að atast í syni mínum (þó ekki kallað einelti....) og að búið væri að veita þeim tiltal vegna þessa," ritar Linda.

Fór á spítala með sjúkrabíl



„Síðan er mér sagt frá atviki sem átti sér stað í íþróttatíma umræddan dag. Íþróttatíminn var kenndur utandyra. Drengirnir þrír voru að leika sér með hjólalás sem einn þeirra hafði stolið af hjóli eins nemandans í skólanum. Sonur minn sýndi þessum hjólalás áhuga. Einn drengjanna og sonur minn fara að togast á um lásinn. Hinir drengirnir fara að skipta sér af (þrír á móti einum) og fær minn sonur m.a. högg í andlitið og spark í sköflunginn. Á endanum lætur sonur minn í minni pokann og sleppir lásnum, með þeim afleiðingum að hinn drengurinn dettur aftur fyrir sig og fær kúlu á höfuðið. Sonur minn dettur líka aftur fyrir sig, en þar sem hann var með skólatöskuna sína á bakinu, sakaði hann ekki. Þar sem ekki náðist í foreldra þessa drengs, var ákveðið að kalla á sjúkrabíl og hann sendur upp á spítala," segir móðirin. Hún þakkar fyrir að hann slasaðist aðeins lítillega og fékk kúlu á höfuðið. „Umræddan föstudag var ekki vitað um alla málavexti, en það þótti þó nokkuð borðliggjandi að drengirnir þrír áttu upptökin," segir hún.



Fékk neyðarpláss við Dalbraut


Síðar sama dag fékk hún annað símtal frá aðstoðarskólastjóra og henni sagt að hún þurfi að halda syni sínum heima næsta virka dag. Seinni hluta mánudags var henni síðan tilkynnt að hún fengi ekki að koma aftur með drenginn í Vesturbæjarskóla og að neyðarpláss hafi fengist fyrir hann í Brúarskóla við Dalbraut þar til útibú Brúarskóla við Vesturhlíð, þar sem hún hafði sótt um pláss, gæti tekið við honum.

Hún er afar ósátt við þessa málalyktan og segir að syni sínum hafi verið vísað úr Vesturbæjarskóla án viðhlítandi skýringa.

Ósátt við viðbrögð skólayfirvalda

Ofan á þetta allt saman segist konan hafa fengið vitneskju um hótanir foreldra barna í bekk sonar hennar í Vesturbæjarskóla. „Þeir höfðu tilkynnt stjórnendum Vesturbæjarskóla að þeir hefðu tilskipað börnunum sínum að standa upp og ganga út úr kennslustofunni ef sonur minn kæmi aftur í skólann," segir hún. „Það sem mér þykir sorglegast og alvarlegast er að skólastjóri þessa skóla hafi ekki staðið upp í anda eineltis áætlunar skólans og hreinlega veitt þessum foreldrum tiltal. Skólinn gefur sig út fyrir að vera Olweusarskóli," segir Linda.

Unnið gegn einelti

Á heimasíðu Vesturbæjarskóla er tekið fram:

,,Vesturbæjarskóli er Olweusarskóli. Að vera Olweusarskóli merkir að skólinn vinnur markvisst gegn einelti og andfélagslegri hegðun í skólanum og styðst í því sambandi við starfsaðferðir Norðmannsins Dans Olweusar, en þær byggist á nokkrum veigamiklum undirstöðureglum sem hvíla á rannsóknarniðurstöðum um hegðunarvanda."

Þegar blaðamaður Vísis hafði samband við Vesturbæjarskóla vegna málsins fengust þau svör að skólayfirvöld gætu ekki tjáð sig um mál einstaka nemenda. Þó var tekið fram að skólinn legði sig fram í að vinna gegn einelti. Þá var vísað til þess að foreldrar barna í skólanum væru almennt mjög ánægðir með hvernig skólinn bregst við eineltismálum.

Linda segist spyrja sig hvort aðrir foreldrar í Vesturbæjarskóla yrði stoltir ef þeir vissu af svona vinnubrögðum innan skólans. „Hvaða skilaboð og gildi eru þessir blessuðu foreldarar að gefa börnunum sínum með því að hvetja þau til slíkra aðgerðar gegn fötluðu barni ?? Ég hef það frá öðrum foreldrum í bekknum að bekkjarfélagarnir hafa heldur enga skýringu fengið á því hvers vegna sonur minn er ekki lengur í skólanum, eða hvað varð um hann. Allir vita um atburðinn sjálfan og að það var kallaður til sjúkrabíll - en enginn veit hvað orðið hefur um son minn," segir hún.

Ánægðir nemendur

Samkvæmt niðurstöðum könnunar sem gerð var á vegum Olweusarverkefnisins frá síðasta ári finnst nemendum Vesturbæjarskóla umsjónarkennarar geri mikið til að stöðva einelti í skólanum. „Bæði drengir og stúlkur upplifa að kennarar og starfsmenn skólans geri eitthvað til þess að stöðva einelti. Þessi upplifun verður sterkari á hverju ári og eru það góðar fréttir," segir í skýrslu Olweusarverkefnisins.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×