Innlent

BÍ: Konur vilja aukaaðalfund

Félag fjölmiðlakvenna hefur sent frá sér ályktun þar sem átök innan Blaðamannafélags Íslands eru hörmuð. „Félag fjölmiðlakvenna harmar átök í stjórn Blaðamannafélagi Íslands sem leiddu til þess að þrjár þungavigtarkonur í blaðamennsku hurfu úr stjórninni," segir meðal annars og bætt við að í þeirra stað hafi verið valin nærri hrein karlastjórn.

„Svipuð staða er í nefndum BÍ, þar sem konur sitja á varamannabekk. Staðan í félaginu er óþægileg og með öllu óviðunandi fyrir stéttina," segir ennfremur.

„Allt frá hruni hefur verið gengið harkalega fram gegn konum á fjölmiðlum. Fjölmiðlakonur hafa misst vinnuna í stórum stíl eða hrökklast úr starfi." Félagið hafnar því að karlar ráði einir ferðinni í Blaðamannafélagi Íslands og skorar því á stjórn BÍ að boða til aukaaðalfundar hið fyrsta. „Jafnframt hvetur félagið konur til að bjóða sig fram til formennsku og almennrar stjórnarsetu í BÍ. Í dag eru fjölmiðlakonur nær áhrifalausar jafnt meðal eigenda fjölmiðla, ritstjórna og í eigin fag- og stéttarfélagi. Við það verður ekki unað árið 2010."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×