Innlent

Heimdallur minnir á hvaðan peningarnir koma

Árni Helgason, formaður Heimdallar.
Árni Helgason, formaður Heimdallar.

Stjórn Heimdallar, félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík hefur sent frá sér ályktun vegna umræðunnar um fjármögnunm golfvallar á sama tíma og borgin glímir við þrönga stöðu. „Atburðir og umræða síðustu daga sýna vel hve hættuleg blanda stjórnmálamenn og opinber útgjöld eru," segir í ályktuninni.

„Á tímum niðurskurðar á öllum sviðum í Reykjavíkurborg hefur meirihlutinn í borginni tekið þá ákvörðun að endurfjármagna gamlan kosningavíxil R-listans upp á 230 milljónir í formi stærri golfvallar í stað þess að fresta stækkuninni eins og gert hefur verið með önnur verkefni og framkvæmdir í ljósi þröngrar stöðu borgarinnar."

Heimdellingar benda á að á sama tíma og borgarfulltrúar minnihlutans í Reykjavík gagnrýna meirihlutann fyrir að efna útgjöldin „sem þeir stofnuðu þó sjálfir til á sínum tíma, boða sömu flokkar milljarða samgönguframkvæmdir á vettvangi ríkisstjórnarinnar."

„Þær framkvæmdir eru vitaskuld kostaðar af skattfé heimila og fyrirtækja," segir ennfremur. „Til að fullkomna ósamkvæmnina boðaði einn þingmanna þingmaður Samfylkingarinnar á vef sínum sama dag og umræðan í borgarstjórn fór fram að byggja þyrfti upp gestaaðstöðu og þjónustumiðstöð við skíðasvæðið í Hlíðafjalli "af metnaði" og að horfa ætti til lífeyrissjóðanna í þeim efnum."

Að mati Heimdallar er framtakssemi stjórnmálamanna engin takmörk sett, svo lengi sem hún er á kostnað annarra. „Heimdallur, félag ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, minnir kjörna fulltrúa í sveitastjórnum og á þingi á að peningarnir sem þeir eyða af metnaði eru teknir frá heimilum og fyrirtækjum landsins þar sem róðurinn er víða þungur um þessar mundir. Því væri nær að draga úr eyðslu hins opinbera og skilja meira eftir hjá fólkinu í landinu."












Fleiri fréttir

Sjá meira


×