Kristján Þór vitnaði til þeirra orða Harðar Arnarsonar, forstjóra Landsvirkjunar, á Stöð 2, að ákvörðun umhverfisráðherra, að hafna skipulagi virkjana í neðri Þjórsá, myndi tefja atvinnuuppbyggingu, sem byggði á orku þeirra virkjana, um eitt til tvö ár. Kristján Þór sagði að í ljósi þessara orða forstjóra stærsta orkufyrirtækis landsins væru þetta grafalvarleg tíðindi, ekki síst í ljósi þess að fjöldi fyrirtækja hefði óskað eftir viðræðum um atvinnuuppbyggingu. Hann spurði iðnaðarráðherra hvaða aðrir virkjanakostir væru í hendi.
Katrín Júlíusdóttir svaraði með því að benda á Norðurland og sagði að það hlyti að gleðja háttvirtan þingmann að hjá Landsvirkjun væri settur mikill fókus á svæðin í Þingeyjarsýslum. "Vegna þess að það er alveg ljóst að það næsta í tíma, og mesta magn af orku sem við getum sótt, verður á því svæði," sagði Katrín.
Kristján Þór sagði það vissulega gleðja sitt hjarta að Norðurland gæti orðið þjóðinni til hjálpar á þessum erfiðu tímum. Það dygði þó ekki til svars fyrir þau verkefni sem hefðu beðið hér í alllangan tíma.
Í fréttum Stöðvar 2 í gær kom fram að sex mismunandi aðilar væru í viðræðum við sveitarfélagið Ölfus um uppbyggingu í Þorlákshöfn. Á Suðurnesjum eru einnig nokkur verkefni í undirbúningi, svo sem gagnaver og kísiliðnaður.
"Það er alveg ljóst að þau áform eru við þennan úrskurð í algjöru uppnámi. Því að ekki munum við Norðlendingar standa eilíflega í því, hvort heldur er á Norðurlandi vestra eða eystra, að flytja orkuna og lífsbjörgina hér suður," sagði Kristján Þór.
Katrín Júlíusdóttir svaraði því ekki í seinni ræðu sinni hvaða aðra kosti en Þingeyjarsýslur Landsvirkjun hefði til að mæta óskum um orkusölu til nýrra verkefna sunnan heiða.