Innlent

Samkomulag um aukið öryggi í borginni

Hanna Birna og Stefán undirrituðu samkomulagið í Ráðhúsinu í dag.
Hanna Birna og Stefán undirrituðu samkomulagið í Ráðhúsinu í dag.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu og borgarstjóri undirrituðu í dag tveggja ára samstarfssamning milli borgarinnar og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á sviði öryggis- og forvarnarmála. Markmið samningsins er að stuðla að auknu öryggi almennings í borginni með markvissu samstarfi þessara aðila.

Með samningnum er stefnt að fækkun innbrota, eignaspjalla og umferðarslysa í borginni um 5 til 10% milli ára með reglulegum mælingum, viðeigandi viðbrögðum, eftirfylgni og eftirliti, að fram kemur í tilkynningu. Fulltrúar beggja aðila munu í framhaldi af því greina upplýsingarnar í því augnamiði að efna til viðeigandi aðgerða til að auka öryggi, fækka slysum, skipuleggja forvarnir og grípa til annarra nauðsynlegra ráðstafana.

Lögreglan verður með aðsetur í þjónustumiðstöðvum borgarinnar og mun í samstarfi við starfsmenn miðstöðvanna vinna að forvörnum og fjölskylduþjónustu auk umferðarfræðslu. Starfsmenn þjónustumiðstöðvanna og lögreglan munu veita íbúum aðstoð við að koma upp nágrannavörslu, skipuleggja athvarfsvaktir og fræðslufundi um forvarnir í hverfum borgarinnar. Þá munu þessir aðilar ásamt ÍTR og foreldrum eiga með sér samráð um foreldrarölt.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri, og Stefán Eiríksson, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, skrifuðu undir samstarfssamninginn í Ráðhúsinu fyrr í dag. Hanna Birna segir samninginn fela í sér ótvíræðan ávinning fyrir borgarbúa.

„Með samningnum er stuðlað að sérþekkingu lögreglunnar á aðstæðum og þjónustu innan einstakra hverfa. Sú þekking að viðbættri öflugri samvinnu við starfsmenn þjónustumiðstöðvanna á án efa eftir að skila sér í árangursríkara forvarnarstarfi og auknu öryggi í hverfum borgarinnar," er haft eftir borgarstjóra í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×