Innlent

Íslendingur uppfyllti ekki lengur skilyrði laga um búsetu hér á landi

Manni um fimmtugt brá í brún þegar Þjóðskrá tilkynnti honum að hann uppfyllti ekki lengur skilyrði laga um búsetu Íslandi. Þetta þykir manninum furðulegt enda er hann alíslenskur.

Í lok desember barst Jóni Halldórssyni, leigubílstjóra á fimmtugsaldri, bréf frá Þjóðskrá. Í því stóð meðal annars: „Þjóðskrá hafa borist upplýsingar frá skattstjóranum í Reykjavík sem benda til að þér uppfyllið ekki lengur skilyrði laga um lögheimili. Samkvæmt Þjóðskrá er lögheimili yðar skráð á Íslandi en réttur til slíkrar skráningar fellur niður við búsetu yðar erlendis ef þér meðal annars stundið ekki nám þar."

Þá stendur: „Með vísan til ofangreindra upplýsinga gefur Þjóðskráin yður hér með þriggja vikna frest frá dagsetningu þessa bréfs, til að færa sönnur á að þér hafið rétt til skráningar lögheimilis á Íslandi. Berist ekki svar frá yður innan tilskilins frests megi þér búast við að Þjóðskráin muni skrá lögheimili yðar utanlands án frekari tilkynningar."

Jón varð að sögn fremur hissa þegar hann fékk þessa tilkynningu, einkum og sér í lagi þar sem hann er borinn og barnfæddur Íslendingur og hefur aldrei verið í námi erlendis og nokkur ár eru síðan hann fór út fyrir landssteinana síðast.

Það sem hann ergir sig þó helst á er að þegar hann fór á fund yfirmanna hjá Þjóðskrár og sagðist hvorki vera útlendingur né námsmaður erlendis var hann beðinn að færa sönnur um að svo væri. Til þess þurfti hann að ráða lögfræðing og kostaði þjónusta hans um 50 þúsund krónur.

Jón segist ekki kunna neinar skýringar á þessu aðrar en þær að kona hans sé frá Haíti. Hún hafi samt ekki verið í námi erlendis og því eigi bréfið ekki heldur við hana.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×