Innlent

Hreyfingin furðar sig á fyrirhugaðri dagskrá Alþingis

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hreyfingin furðar sig á því hvernig dagskrá Alþingis er háttað í næstu viku.
Hreyfingin furðar sig á því hvernig dagskrá Alþingis er háttað í næstu viku.
Þingmenn Hreyfingarinnar furða sig á fyrirhugaðri dagskrá Alþingis í næstu viku eftir útkomu skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis. Þetta kemur fram í tilkynningu sem þingmennirnir hafa sent fjölmiðlum. Skýrslan verður birt klukkan 10:15 á mánudag. Fyrirhugað er að umræðan um skýrsluna fari fram í þinginu n.k. mánudag, þriðjudag og miðvikudag í samtals 10½ klukkustund.

Þingmenn Hreyfingarinnar benda á að skýrslan sé í níu bindum og áætli Rannsóknarnefndin sjálf að það taki um 95 klukkustundir að lesa hana frá upphafi til enda og því augljóst að þingmenn muni ekki hafa kynnt sér efni hennar til fullnustu þegar umræður fari fram en henni ljúki á miðvikudag. Þá sé gert ráð fyrir nefndarfundum á morgnum þriðjudags og miðvikudags og því muni sá tími ekki nýtast þingmönnum til lesturs.

Þingmenn Hreyfingarinnar segjast telja það algjörlega óásættanlegt að þingheimi sé ekki gefið tækifæri á að kynna sér efni skýrslunnar í þaula áður Alþingi lýkur umræðu um hana. Slík vinnubrögð geti engan veginn gert umræðuefninu nægilega góð skil og hljóti að einkennast af sýndarmennsku. Segja þingmenn Hreyfingarinnar að slík vinnubrögð hafi átt stóran þátt í hruninu og væri óskandi að þingið reyndi að læra af reynslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×