Innlent

Síðasti borgarafundur fyrir þjóðfund haldinn í kvöld

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðrún Pétursdóttir er formaður stjórnlaganefndar. Mynd/ GVA.
Guðrún Pétursdóttir er formaður stjórnlaganefndar. Mynd/ GVA.
Stjórnlaganefnd og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarasvæðinu halda borgarafund í dag í Súlnasal á Hótel Sögu frá klukkan hálfsex til hálfátta. Fundurinn er kynningafundur um stjórnlagaþing og Þjóðfund 2010 auk þess sem kallað er eftir sjónarmiðum fundarmanna.

„Þetta er sjöundi og síðasti borgarafundurinn sem stjórnlaganefnd heldur um endurskoðun á stjórnarskránni. Við höfum ásamt landshlutasamtökum sveitarfélaga staðið fyrir opnum borgarafundum víðsvegar um landið sem hafa heppnast vel. Markmið þessara funda var að kynna fyrirhugað stjórnlagaþing og Þjóðfund, en einnig að heyra sjónarmið fólks um hvernig samfélag það vill byggja. Þetta hefur verið bæði lærdómsríkt og skemmtilegt og ég vona að við fáum jafn góðar umræður á fundinum í Súlnasal hótel Sögu og hafa verið á borgarafundunum hingað til," segir Guðrún Pétursdóttir, formaður stjórnlaganefndar, í tilkynningu vegna fundarins.

Stjórnlaganefnd var kosin af Alþingi í sumar til þess að undirbúa endurskoðun stjórnarskrárinnar. Nefndinni er ætlað að finna og leggja fram gögn fyrir stjórnlagaþing, standa fyrir Þjóðfundi um endurskoðun á stjórnarskrá, vinna úr upplýsingum frá fundinum og afhenda stjórnlagaþingi og loks að leggja fram hugmyndir að breytingum á stjórnarskránni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×