Innlent

Almannatengsladeildin fór verst út úr uppsögnum OR

Valur Grettisson skrifar
Orkuveita Reykjavíkur.
Orkuveita Reykjavíkur.

Það voru niðurlútir starfsmenn sem gengu eftir göngum Orkuveitunnar í dag en 65 starfsmönnum var sagt upp. Vísir ræddi við nokkra starfsmenn sem sögðu allir daginn hafa verið undarlegan.

„Þetta var rosalega skrýtið," sagði einn starfsmaðurinn sem sagði flesta hafa hætt fyrr í dag vegna hópuppsagnarinnar. Samkvæmt heimildum Vísis varð almannatengsla- og umsýsludeildin verst út úr niðurskurðinum, þar var næstum öllum sagt upp en deildin taldi á annan tug starfsmanna.

Þá fékk verkfræðideildin að finna fyrir því. Um einn þriðji af starfsmönnum deildarinnar var sagt upp. Einn starfsmaður sem Vísir ræddi við sagði það sennilega eðlilegt í ljósi þess að verkefnin hafa dregist gríðarlega saman eftir hrun.

„Það ríkti mikil sorg á vinnustaðnum," sagði annar starfsmaður aðspurður hvernig andrúmsloftið hafði verið þegar uppsagnirnar voru tilkynntar.

Hann sagði að í fyrstu olli það ugg á meðal starfsmanna að 65 manns hafði verið sagt upp, en í fjölmiðlum var alltaf talað um 80. Síðar var sendur póstur á starfsmenn þar sem það var tilkynnt að fleiri uppsagnir væru ekki fyrirhugaðar.

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, lagði hart að meirihluta borgarstjórnar í vikunni að minnka frekar starfshlutfall starfsmanna og ná hagræðingu með þeim hætti frekar en að segja starfsfólkinu upp.

Einn viðmælandi Vísis sagði þá umræðu hafa hrist talsvert upp í starfsfólki Orkuveitunnar.

„En manni sýnist hann bara hafa vakið upp falsvonir," sagði starfsmaðurinn sem hafði heyrt að stjórn Orkuveitunnar leit á þær hugmyndir sem tímabundna hagræðingu sem hefði ekki skilað ætluðum sparnaði.

45 karlmönnum og 20 konum var sagt upp störfum. Um var að ræða fólk á öllum sviðum starfseminnar og á öllum aldri.

Skrifstofufólki, stjórnendum, sérfræðingum, iðnaðarmönnum og verkamönnum hafi verið sagt upp störfum.

Fastráðnir starfsmenn verða nú 501 sem sé sambærilegur starfsmannafjöldi og var hjá Orkuveitunni árið 2004.

Með breytingunni fækki stjórnendum í skipuriti um helming.




Tengdar fréttir

Sextíu og fimm missa vinnuna hjá Orkuveitunni

Sextíu og fimm fastráðnum starfsmönnum Orkuveitu Reykjavíkur var sagt upp störfum í dag, og eru uppsagnirnar sagðar vera hluti af uppstokkun í rekstri fyrirtækisins. Fastráðnu starfsfólki fækkar um 11% með uppsögnunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×