Innlent

Sextíu og fimm missa vinnuna hjá Orkuveitunni

Heimir Már Pétursson skrifar
Sextíu og fimm fastráðnum starfsmönnum Orkuveitu Reykjavíkur var sagt upp störfum í dag, og eru uppsagnirnar sagðar vera hluti af uppstokkun í rekstri fyrirtækisins. Fastráðnu starfsfólki fækkar um 11% með uppsögnunum.

Í tilkynningu frá Orkuveitunni segir að 45 karlmönnum og 20 konum hafi verið sagt upp störfum. Um sé að ræða fólk á öllum sviðum starfseminnar. Skrifstofufólki, stjórnendum, sérfræðingum, iðnaðarmönnum og verkamönnum hafi verið sagt upp störfum. Fastráðnir starfsmenn verði 501 sem sé sambærilegur starfsmannafjöldi og var hjá Orkuveitunni árið 2004. Með breytingunni fækki stjórnendum í skipuriti um helming.

Helgi Þór Ingason forstjóri Orkuveitunnar segir sárt og erfitt að horfa á eftir fólki sem starfað hafi vel og lengi hjá fyrirtækinu. En áður hafði Orkuveitan hækkað verð á heitu vatni og rafmagni verulega og arðgreiðslum til eigenda hefur verið frestað. Orkuveitan skuldar um 240 milljarða króna og á í erfiðleikum með að greiða afborganir af lánum sínum.

Öllum þeim sem sagt var upp störfum í dag verður boðinn 100 þúsund króna styrkur til náms- og námskeiðsgjalda til ársloka 2011. Uppsagnafrestur starfsmannanna sem misstu vinnuna í dag er þrír til sex mánuðir. Fólkið hefur hins vegar verið leyst undan vinnuskyldu og lætur allt af störfum í dag en fær greidd laun út uppsagnarfrestinn. Engum sem orðinn er 65 ára var sagt upp störfum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×