Innlent

Vilja uppboðsmarkað fyrir eignir bankanna

Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins er á meðal flutningsmanna.
Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins er á meðal flutningsmanna.

Tíu þingmenn Framsóknarflokksins og Þór Saari, þingmaður Hreyfingarinnar, vilja að komið verði á fót uppboðsmarkaði fyrir eignir banka og fjármálastofnana. Þingsályktunartillaga þessa efnis hefur verið lögð fram á Alþingi og samkvæmt henni myndi efnahags- og viðskiptaráðherra hafa forgöngu um að stofna óháðan og gagnsæjan uppboðsmarkað fyrir eignir banka og fjármálastofnana, fyrir utan íbúðahúsnæði, sem hafa verið yfirteknar. Í tillögunni segir að markaðnum sé ætlað að „auka skilvirkni efnahagslífsins og trúverðugleika íslensks fjármálakerfis, efla traust almennings og stuðla að gagnsærra samfélagi."

Í greinargerð með tillögunni er þess getir að mikil tortryggni ríki nú í þjóðfélaginu um starfsemi fjármálastofnana og meðferð þeirra eigna sem stofnanirnar hafi tekið yfir. „Nauðsynlegt er fyrir uppbyggingu samfélagsins að allt endursöluferli þessara eigna sé gert lýðræðislegt og gagnsætt, þar sem allir eigi jafna möguleika til þátttöku og við tilboðsgerð í þær eignir sem fjármálastofnanir ætla að selja á hverjum tíma," segir í greinargerðinni. „Öllum bönkum og fjármálastofnunum yrði gert að auglýsa yfirteknar eignir sem ætlunin er að selja á þar til gerðum óháðum markaði. Framkvæmd markaðarins yrði á sambærilegu formi og önnur opinber uppboð og færi fram gegnum sérútbúna vefsíðu," segir ennfremur.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×