Innlent

Opinberar stöðuveitingar verði vandaðri

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Árni Þór Sigurðsson er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Mynd/ Valgarður.
Árni Þór Sigurðsson er fyrsti flutningsmaður tillögunnar. Mynd/ Valgarður.
Sérstök nefnd verður skipuð til að móta skýrar reglur um skipan í opinber embætti, verði tillaga fjögurra alþingismanna þess efnis samþykkt.

Gert er ráð fyrir að Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs, mæli fyrir tillögunni í dag. Í greinargerð með henni kemur fram að opinberar stöðuveitingar séu vandmeðfarnar en veki oft harðar deilur og valdi kærum. Mörg dæmi séu um það að umboðsmaður Alþingis eða kærunefnd jafnréttismála hafi fengið slík mál til umfjöllunar og komist að þeirri niðurstöðu að einstakar stöðuveitingar hafi ekki byggst á málefnalegum sjónarmiðum eins og allar stjórnvaldsákvarðanir verði að gera. Þvert á móti hafi geðþótti eða eigið mat einstakra ráðherra verið látið ráða, jafnvel í tilfellum þar sem sérstakar hæfnisnefndir hafi fjallað um umsóknir og skilað rökstuddu áliti. Það sé staða sem samrýmist ekki sífellt harðari kröfum til opinberrar stjórnsýslu.

Flutningsmenn tillögunnar telja að það sé mikilvægt að almenningur beri traust til stjórnsýslunnar og geti reitt sig á að stjórnvaldsákvarðanir eins og opinberar stöðuveitingar standist skoðun þannig að umsækjendur um opinbert starf geti gengið út frá því sem vísu að þeir séu metnir á grundvelli málefnalegra sjónarmiða og þeirra krafna sem gerðar séu til viðkomandi starfs og auglýstar hafi verið. Embætti í dómskerfinu séu sérstaklega mikilvæg í þessu tilliti enda dómsvaldið eitt af grunnstoðum þrískiptingar ríkisvaldsins.

Flutningsmenn tillögunnar auk Árna Þórs Sigurðssonar eru Álfheiður Ingadóttir, Eygló Harðardóttir og Magnús Orri Schram. Tillagan hefur tvisvar verið flutt áður á þingi en ekki verið afgreidd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×