Enski boltinn

Nasri: Hefðum unnið titilinn ef við hefðum sloppið við meiðslin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Samir Nasri.
Samir Nasri. Mynd/AFP
Samir Nasri, franski miðjumaðurinn hjá Arsenal er mjög pirraður yfir því að liðið á ekki lengur möguleika á að vinna enska meistaratitilinn eftir óvænt 2-3 tap á móti Wigan um síðustu helgi.

„Þetta er mjög svekkjandi. Vinnan sem við leggjum á okkur er ekki að fá þá viðurkenningu sem við eigum skilið þar sem við erum ekki að vinna titla," sagði Samir Nasri í nýjasta Arsenal-blaðinu.

„Við sýndum það í vetur að við höfum allt til að bera til þess að vinna deildina en við höfum einnig lært mjög mikið af þessum tímabili. Ég vonast til að liðið verði óbreytt á næsta tímabili. Við erum mjög góðir og ef við nýtum okkur reynsluna frá þessum vetri þá getum við afrekað frábæra hluti á næstu leiktíð," sagði Samir Nasri.

Robin van Persie, Cesc Fábregas, Andrey Arshavin og Theo Walcott hafa allir verið mikið meiddir á tímabilinu og það hefur haft sín áhrif á Arsenal-liðið.

„Meiðsli eru hluti af fótboltanum en við hefðum unnið titilinn og verið enn inni í Meistaradeildinni ef við hefðum sloppið við öll þessi meiðsli. Þetta voru heldur ekki einhver smámeiðsli því þau voru öll mjög alvarleg," sagði Nasri.

„Arsenal er örugglega eina liðið sem hefur misst fimm af bestu leikmönnum sínum sem gæti verið svona ofarlega í ensku úrvalsdeildinni og náð að standa sig vel á móti Barcelona í Meistaradeildinni," sagði Nasri að lokum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×