John Terry var eðlilega mikið í sviðsljósinu í gærkvöldi enda var hann að spila sinn fyrsta landsleik síðan hann missti fyrirliðabandið hjá enska landsliðinu.
Það fór nokkuð mikið fyrir bauli í hans garð í upphafi leiks en meirihluti áhorfenda klappaði fyrir honum í lok leiks Englands og Egyptalands.
„Stuðningsmennirnir voru frábærir. Eðlilega var eitthvað um baul en ég ræð alveg við það og fólk hefur fullan rétt á sinni skoðun," sagði Terry sem hefur varla talað við fjölmiðlamenn síðan upp komst um kynlífshneykslið.
„Baul eða klapp í minn garð skiptir ekki neinu máli. Það sem öllu skiptir er að við unnum leikinn. Ég var heilt yfir afar ánægður með stuðninginn úr öllum áttum."