Innlent

Fólk kaupir miklu dýrari síma

Nýir símar með fjölbreytta notkunarmöguleika seljast nú betur en í fyrra. Nordicphotos/AFP
Nýir símar með fjölbreytta notkunarmöguleika seljast nú betur en í fyrra. Nordicphotos/AFP
Söluandvirði seldra símtækja hjá Vodafone á Íslandi er 33 prósentum hærra fyrstu níu mánuði ársins en á sama tímabili í fyrra.

Hrannar Pétursson, upplýsingafulltrúi Vodafone á Íslandi, segir töluverðar sveiflur milli mánaða. Mestur munur er á sölutölum í ágúst, þegar salan var 55 prósentum meiri en árið á undan og í mars þegar munaði 50 prósentum. Í september segir hann að söluandvirði símtækjanna hafi verið 22 prósentum hærra en í fyrra. „Og það er rétt að taka fram að virðisaukaskatturinn er ekki inni í þessu þannig að hækkun á honum skýrir ekki hluta af þessu,“ segir Hrannar.

Hluti af skýringunni segir Hrannar að kunni að vera að símatækjasala hafi verið fremur léleg í fyrra og kunni því óvenjumargir símar að hafa verið „komnir á tíma“. Þá noti fólk líkast til tækifærið þegar að endurnýjun komi og kaupi síma með fjölbreyttari notkunarmöguleika en áður, svo sem síma sem auðvelda netnotkun, eða hafa þægilegt viðmót fyrir tölvupóst og samskiptaforrit á borð við Facebook.

„Almennt er fólk að kaupa miklu flottari tæki en í fyrra því söluverðmæti seldra tæki hefur aukist miklu meira en magnið,“ segir hann og bendir á að þótt söluverðmætið í ágúst hafi verið 55 prósentum meira en í fyrra hafi ekki selst nema sautján prósentum fleiri símtæki. „Mestu munaði þar um nýja iPhone-símann, sem seldist fyrir tíu milljónir í mánuðinum.“ - óká



Fleiri fréttir

Sjá meira


×