Innlent

Ætla að halda Gauraflokk í fjórða sinn

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gamli skálinn í Vatnaskógi.
Gamli skálinn í Vatnaskógi.
KFUM ætlar að halda sumarbúðir í sumar fyrir 10-12 ára drengi með athyglisbrest, ofvirkni og skyldar raskanir. Ef fer sem horfir, verður þetta í fjórða sinn sem hópurinn er haldinn.



Alltaf fullt í Gauraflokki


Verkefnið hefur verið kallað Gauraflokkur, en markmiðið með honum er að bjóða þennan hóp drengja velkominn í sumarbúðir í Vatnaskógi þar sem þörfum þeirra er mætt á skilningsríkan og uppbyggilegan hátt, eins og segir á vefsíðu KFUM. „Það er alltaf fullt hjá okkur og mikil ánægja með þetta á meðal foreldra. Við höfum kannað það, við höfum haft samband við foreldra eftirá og fengið almennt mjög jákvætt viðhorf," segir Ársæll Aðalbergsson, forstöðumaður í Vatnaskógi. Raunar hefur tekist svo vel til að nú stendur til að setja á laggirnar hóp fyrir stúlkur líka. „Þá ætlum við að nota aðrar sumarbúðir sem við starfrækjum sem heitir Kaldársel," segir Ársæll.



Reynt að halda kostnaði í lágmarki fyrir foreldra


Kostnaðurinn við að halda Gauraflokkinn er umtalsvert meiri en sá kostnaður sem fer í að taka á móti öðrum hópum í Vatnaskógi. Við erum með meiri mönnun, færri drengi og sérhæft starfsfólk," segir Ársæll. Til að kostnaður, umfram það sem hefðbundin sumarbúðadvöl kostar, falli ekki á foreldra drengja í Gauraflokknum hafa Skógarmenn því hingað til leitað eftir stuðningi frá utanaðkomandi aðilum til þess að fjármagna verkefnið. Ársæll segir að til standi að leita til Reykjavíkurborgar sem geti ef til vill fjármagnað verkefnið með aðstoð félags- og tryggingamálaráðuneytisins. „Við erum í viðræðum við Reykjavíkurborg um að þeir komi að þessu," segir Ársæll.



Verkefnið vekur athygli


Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir borgarfulltrúi bendir á það á heimasíðu sinni að ríkisstjórnin og sveitarfélög séu í samstarfsverkefni með sjóð sem fjármagnaður sé af ríkinu og sé ætlað að auka stuðnings- og nærþjónustu við langveik börn og börn sem greind hafa verið með ofvirkni og athyglisbrest. Hún segir að Gauraflokkurinn hafi vakið athygli sína þegar að hún heimsótti KFUM og -K fyrir áramót og hún hyggist styðja samtökin í að sækja í þennan sjóð núna til að verkefnið geti haldið áfram.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×