Íslenski boltinn

Baldur Sigurðsson: Vitum hvernig á að stöðva FH

Elvar Geir Magnússon skrifar
Baldur Sigurðsson, miðjumaður KR, er spenntur fyrir leik kvöldsins.
Baldur Sigurðsson, miðjumaður KR, er spenntur fyrir leik kvöldsins.

Það er heldur betur stórleikur í Frostaskjólinu í kvöld þegar KR og FH eigast við. Bæði lið þurfa á sigri að halda í baráttunni um toppsætið þar sem Breiðablik og ÍBV unnu bæði í gær.

Tölfræðin er ekki með KR-ingum en FH hefur gott tak á þeim. „Þessi tölfræði skiptir engu máli í kvöld, þetta er nýr leikur. Menn eru mjög spenntir og mæta örugglega brjálaðir til leiks," segir Baldur Sigurðsson, miðjumaður KR.

„Þeir hafa verið að fara illa með okkur og við verðum að sýna að þeir eru ekki svona mikið betri," segir Baldur. KR-ingar verða án Bjarna Guðjónssonar fyrirliða og Kjartans Henry Finnbogasonar sem taka báðir út leikbann.

„Ég hef ekki minnstu áhyggjur þó þá vanti. Ég er viss um að þeir sem koma inn í liðið munu standa sig."

En hver er lykillinn að því að stöðva FH? „Við þurfum að ná að stöðva miðjuspilið hjá þeim. Þeir eru sterkir fram á við og sækja á mörgum mönnum. Þar opnast möguleiki og við verðum að ná að refsa þeim þegar þeir eru með marga menn frammi," segir Baldur.

„Við vitum hvað við þurfum að gera til að stöðva þá, við þurfum bara að sýna að við getum það. ÍBV og Breiðablik unnu í gær og við verðum að ná sigri í kvöld. Við þurfum helst að vinna alla leiki sem við eigum eftir."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×