Innlent

Deilt um skuldastöðu heimilanna

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lilja Mósesdóttir segir að rætt hafi verið að gera könnun á skuldastöðunni í vor. Mynd/ Valli.
Lilja Mósesdóttir segir að rætt hafi verið að gera könnun á skuldastöðunni í vor. Mynd/ Valli.
Stjórnvöld hafa ekki gert neina könnun á stöðu heimilanna síðan að Seðlabanki Íslands gerði slíka könnun í byrjun árs 2009. Eftir því sem Vísir kemst næst er ástæðan ágreiningur um það hvort gera eigi einfalda könnun sem yrði nokkuð sambærileg við þá könnun sem Seðlabankinn gerði þá eða hvort gera eigi flóknari könnun.

Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, vakti máls á því á Alþingi í gær að það vantaði könnun á stöðu heimilanna. Meðal annars þyrfti að kanna hversu mörg heimili eru án fyrirvinnu og jafnframt hversu mörg heimili eru með neikvæða eiginfjárstöðu. Til þess að hægt væri að byggja lausnir fyrir vanda heimilanna yrði að liggja fyrir hver vandi heimilanna væri.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að gerð slíkrar könnunar hafi verið til umræðu i vor. Lilja Mósesdóttir, þingmaður VG, kannast við það. „Málið var til umræðu í efnahags- og skattanefnd Alþingis síðastliðið vor. „En sú könnun var bara einn tímapunktur og átti að kosta 30 milljónir. Seðlabankinn var mjög á móti þessu og fannst bara verið að henda peningum út í loftið. Þeir vildu frekar að það yrði tekið til við að undirbúa rannsókn sem yrði varanleg. Þar sem yrði þá alltaf verið að skoða stöðu heimila með reglulegu millibili," segir Lilja Mósesdóttir.

Lilja segir að það hefði verið forsvaranlegt að gera nýja könnun í vor, sem hefði verið sambærileg við könnun Seðlabankans, ef slík könnun hefði verið notuð til að byggja úrræði fyrir heimilin á. Það hafi hins vegar ekki staðið til og því hafi verið hætt við könnunina.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×