Innlent

Félagsbústaðir tóku milljarða gengistryggt kúlulán

Félagsbústaðir tóku gengistryggt kúlulán árið 2007, sem stendur í tæpum milljarði króna með gjalddaga í ár. „Óskynsamlegt, eftir á að hyggja," segir framkvæmdastjórinn.

Fréttastofa hefur undanfarið birt viðtöl við fólk í fullri vinnu en á lágum launum sem telur sig vart hafa efni á því að leigja félagslegar íbúðir hjá Reykjavíkurborg.

Félagsbústaðir sjá um að reka allar félagslegar íbúðir í Reykjavík og er alfarið í eigu borgarinnar. Framkvæmdastjórinn segir útilokað að lækka leiguna.



Funda með Íslandsbanka


En hvernig skyldi standa á því? Félagsbústaðir keyptu íbúðir fyrir fimm milljarða króna á hápunkti fasteignabólunnar, 2007 og 2008 - og á í dag nær eina af hverjum 20 íbúðum í borginni. Fyrirtækið hefur tapað milljörðum á rekstrinum síðustu ár en vandinn í dag er hins vegar skammtíma gengislán sem félagið tók árið 2007 sem stendur nú í nærri milljarði króna með gjalddaga í desember. Félagið á fund með Íslandsbanka í næstu viku til að semja um lánið.

Framkvæmdastjóri Félagsbústaða vonast til að hægt verði að borga lánið upp með því að selja 60 íbúðir í Fellahverfi á næstu 3-4 árum. Hann segir jafnframt að Félagsbústöðum hafi verið skylt að fjölga íbúðum í samræmi við stefnu borgarinnar. Eftir á að hyggja hafi það hins vegar verið óskynsamlegt að safna íbúðum á þessu tíma og fjármagna að hluta með gengisláni.



Kerfið skoðað


Jón Gnarr, borgarstjóri, segist ekki þekkja málið það vel til að geta svarað því hvort hann telji að félagslega íbúðakerfið í Reykjavík virki sem skyldi.

Leigjendur félagslegra íbúða hafa gagnrýnt að leigan sé nánast jafnhá því sem gengur á almennum markaði. „Það segir okkur náttúrulega að það er eitthvað að," segir Jón.

Hann segir að það hafi ekki verið ákveðið hvort kerfinu verði breytt en það verði skoðað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×