Íslenski boltinn

Hólmfríður og félagar í úrslitaleik WPS-deildarinnar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hólmfríður Magnúsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Hólmfríður Magnúsdóttir í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Vilhelm

Philadelphia Independence, lið Hólmfríðar Magnúsdóttur, tryggði sér í nótt sæti í úrslitaleik bandarísku atvinnumanndeildarinnar í knattspyrnu, WPS, með 2-1 sigri á Boston Breakers í framlengdum leik.

Hólmfríður var í byrjunarliði Philadelphia en var tekin af velli í lok venjulegs leiktíma.

Staðan að loknum venjulegum leiktíma var 1-1 en Danesha Adams tryggði Philadelphia sigurinn með skallamarki á 103. mínútu. Svo virtist reyndar að boltinn hafi farið af hönd Adams og í markið en því neitaði hún sjálf í viðtölum eftir leikinn.

Philadelphia mætir FC Gold Pride frá Santa Clara í Kaliforníu í úrslitaleiknum á sunnudaginn kemur. Með því liði leikur til að mynda hin brasilíska Marta sem margoft hefur verið valin leikmaður ársins af Alþjóða knattspyrnusambandinu, FIFA.

FC Gold Price varð deildarmeistari með yfirburðum en liðið hlaut 53 stig á tímabilinu en Philadelphia 34.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×