Íslenski boltinn

Breiðablik fær yfir 130 milljónir fyrir Gylfa Þór Sigurðsson

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Gylfi í leik með Reading.
Gylfi í leik með Reading. GettyImages
Gylfi Þór Sigurðsson mun í dag skrifa undir fjögurra ára samning við þýska úrvalsdeildarfélagið Hoffenheim. Þetta kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti fyrir stuðningsmenn Reading sem trúa því ekki að félagið skuli hafa samþykkt tilboð í sinn besta mann.

Gylfi fór í læknisskoðun í gær og fær allar niðurstöður hennar í dag. Í framhaldinu verður gengið frá stórum samningi þar sem Gylfi fær verulega kauphækkun frá samningi sínum hjá Reading.

Hoffenheim var í fimmtu deild í Þýskalandi árið 2000 en komst árið 2008 upp í efstu deild. Milljarðamæringurinn Dietmar Hopp er ein aðalástæða þess. Félagið spilar á rúmlega 30 þúsund manna velli og er sem stendur við topp deildarinnar. Það lenti í ellefta sæti hennar í fyrra eftir frábært gengi fyrir áramót.

Gylfi kostar Hoffenheim yfir sex milljónir punda. Það eru yfir 1.100 milljónir íslenskra króna. Hann er þar með orðinn næstdýrasti Íslendingurinn en Barcelona borgaði Chelsea 8,2 milljónir punda fyrir Eið Smára Guðjohnsen árið 2006.

Af þessum rúmu sex milljónum punda græðir Breiðablik mikið en hann var hjá félaginu í tvö ár og spilaði aldrei aðalliðsleik fyrir það. Gylfi var aðeins fimmtán ára þegar hann fór út. Félagið gerði samning við Reading um að fá tíu prósent kaupverðsins á Gylfa og því fá Blikar um 120 milljónir íslenskra króna, auk ríflega tíu milljón króna í uppeldisbætur.

Auk þess mun FH fá nokkrar milljónir fyrir Gylfa í samstöðubætur sem það deilir með Blikum og Reading. Uppeldisbæturnar sem deilast á milli félaganna eru fimm prósent kaupverðsins.

Gylfi kemur beint heim eftir undirritun samningsins og fer á landsliðsæfingu hjá Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×