Íslenski boltinn

Tryggvi: Þetta var enginn glansleikur

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Tryggvi í leik með FH í fyrra.
Tryggvi í leik með FH í fyrra.

Tryggvi Guðmundsson fór meiddur af velli í kvöld þegar ÍBV tapaði 2-0 fyrir Fram. Tryggvi fann sig ekki í leiknum frekar en flestir samherjar hans.

„Ég fór í tæklingu og kom illa upp úr henni, ökklinn er stokkbólginn eins og staðan er en maður fær góða aðstoð fyrir laugardaginn," sagði Tryggvi sem vonast þó til að geta spilað gegn Val á laugardag. „Ég ætla mér klárlega að spila á Hásteinsvelli á laugardaginn."

Tryggvi sagði að ferðalagið hefði ekki haft áhrif á hann. „Ég kom með Herjólfi í gær ásamt öðrum og það var afar gott til sjós þannig ekki er hægt að kenna um aðstæðum eða ferðalögum fyrir þessum úrslitum. Við vorum bara ekki að spila glansleik, ekki heldur Framarar en við héldum boltanum illa og sendingarnar klikkuðu þannig þetta var bara sanngjarnt," sagði Tryggvi.

En fannst honum vera vorbragur yfir leiknum? „Já. Eins og ég segi, það var ekki mikill glans yfir þessum leik. Þeir voru ekkert mikið betri en við en þeir gera tvö mörk og við engin. Það er það sem skiptir máli. Það háði okkur ekki sérstaklega að vera ekki að æfa saman, þetta voru aðallega sendingar sem voru að klikka hjá okkur og það er eitthvað sem þú getur æft heima hjá þér."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×