Innlent

Jarðskjálftar í Goðabungu í Mýrdalsjökli

Almannavarnir funda eftir hádegi með vísindamönnum þar sem meta á stöðu gossins og þörf fyrir gæslu á svæðinu.
Almannavarnir funda eftir hádegi með vísindamönnum þar sem meta á stöðu gossins og þörf fyrir gæslu á svæðinu. MYND/Vilhelm
Gosórói í eldstöðinni í Eyjafjallajökli fer nú hægt minnkandi. Jarðskjálftar urðu í Goðabungu í Mýrdalsjökli í nótt og í morgun. Almannavarnir funda eftir hádegi með vísindamönnum þar sem meta á stöðu gossins og þörf fyrir gæslu á svæðinu.

Almannavarnanefndin á svæðinu undir forystu Kjartans Þorkelssonar sýslumanns kemur saman á Hellu nú klukkan tvo ásamt vísindamönnum til að fara yfir stöðu eldgossins á Fimmvörðuhálsi. Einnig á að meta þörfina fyrir öryggisgæslu við eldstöðina en sjálfur telur Kjartan ekki vanþörf á slíkri gæslu áfram.

Veðurspáin er reyndar óhagstæð til ferðalaga upp á Fimmvörðuháls næstu daga. Þar er nú lélegt skyggni og spáð suðlægum áttum með rigningu á morgun og slyddu eða snjókomu á jöklinum á sunnudag.

Gosið heldur áfram en gosórói fer hægt minnkandi, að sögn Einars Kjartanssonar, jarðeðlisfræðings á Veðurstofunni. Hann er varkár í að spá um framhaldið, sér þó ýmis líkindi með Heimaeyjargosinu árið 1973 sem stóð í hálft ár, og telur Einar ekki ólíklegt að þetta gos nú verði svipað, það geti þó allt eins hætt á morgun.

Tveir jarðskjálftar urðu í Goðabungu í vestanverðum Mýrdalsjökli, sá fyrri varð laust fyrir klukkan tvö í nótt og sá síðari um hálfsjöleytið í morgun, og voru þeir báðir um 2,5 stig. Skjálftar hafa verið algengir í Goðabungu á haustin og segir Einar óvanalegt að sjá þá á þessum árstíma á þessum stað. Grannt er fylgst með þróun mála, en Goðabunga er ekki talin vera hluti af eldstöðinni Kötlu, og vill Einar fremur rekja skjálftana í Goðabungu til jarðhita.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×