Fótbolti

Vuvuzela-lúðrarnir á bannlista hjá UEFA

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, hefur gefið út bann á notkun vuvuzela-lúðranna á öllum leikjum á vegum sambandsins.

Bannið nær yfir alla leiki í Evrópukeppnum og landsleikjum, einnig hér á landi. Ísland mætir Noregi í undankeppni EM 2012 á Laugardalsvelli á föstudagskvöldið.

Vuvuzela-lúðurinn þarf væntanlega ekki að kynna fyrir neinum. Hann vakti mikla ólukku sjónvarpsáhorfenda um allan heim á meðan HM í Suður-Afríku stóð en þar í landi þykir viðeigandi að blása í þá á knattspyrnuvöllum.

„Notkun lúðranna á meðal áhorfenda á HM í sumar einkenndi alla keppnina," sagði í tilkynningu á heimasíðu UEFA sem sagði notkun lúðranna viðeigandi í Suður-Afríku en ætti ekki heima í Evrópu.

Sambandið vilji forðast neikvæð áhrif lúðranna á knattspyrnuleiki í Evrópu og vernda þær hefðir sem þar ríkja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×