Innlent

Forsætisráðherra agndofa yfir póstum til Lárusar

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, furðar sig á því að mál vegna tölvupósta til Lárusar Welding hafi ekki verið sent til sérstaks saksóknara.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, furðar sig á því að mál vegna tölvupósta til Lárusar Welding hafi ekki verið sent til sérstaks saksóknara.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, furðuðu sig á því í morgun að mál tengt tölvupóstssendingum milli Lárusar Welding og stórra hluthafa Glitnis hafi ekki verið sent til embættis sérstaks saksóknara. Forsætisráðherra segist agndofa yfir tölvupóstunum.

Jóhanna Sigurðardóttir átti frumkvæði að því að ræða málið sérstaklega á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar í morgun.

„Glitnismálið sem verið hefur mikið í umræðunni, það er kannski ekki öllum ljóst, miðað við þá umræðu sem verið hefur í gangi, að það voru sett lög um sérstakan saksóknara og það er lagaskylda að vísa málum til [embættisins] þegar svona mál koma upp," sagði Jóhanna.

Jóhanna sagði að þetta mál hefði vakið furðu. „Maður er auðvitað agndofa yfir þessu en málin eiga að fara réttar boðleiðir. Manni finnst ótrúlegt að þetta hafi getað gerst inni í bönkunum eins og fram hefur komið í þessum tölvupóstum. Það er mjög mikilvægt að þetta fari réttar leiðir og í þessu tilviki á að vísa þessu máli til sérstaks saksóknara. [...] Mér finnst eins og umræðan hafi verið undarleg að þessu leyti, eins og þetta hafi ekki átt að fara til sérstaks saksóknara," sagði Jóhanna.

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra, blandaði sér líka í þessa umræðu og sagði mikilvægt að sérstakur saksóknari fengi strax öll gögn. Hann sagði æskilegt að refsiþátturinn færi alltaf í athugun hjá embættinu sem allra fyrst. „Það er rétt að árétta að það hvílir alveg fortakslaus lagaskylda á slitastjórnum að láta mál ganga til sérstaks saksóknara ef tilefni eru til. Það þarf auðvitað að tryggja að sú lagaskylda sé virt. Hugsanlega hefur orðið einhver misbrestur þar á, væntanlega vegna þess að menn hafa túlkað stöðu sína með mismunandi hætti, talið að þeir gætu hafið mál og sent gögnin svo síðar. Ég held að hin rétta túlkun sé sú að strax og menn hafi ástæðu til að ætla að eitthvað sé athugunarvert við framferði manna, á grundvelli þeirra gagna sem þeir hafi undir höndum, þá eigi þeir [meðlimir slitastjórnar innsk.blm] að gera sérstökum saksóknara viðvart um það," sagði Steingrímur.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×