Enski boltinn

Mascherano vill ólmur komast til Inter

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Umboðsmaður Javier Mascherano segir að Argentínumaðurinn sé mjög spenntur fyrir því að ganga í raðir Inter.

Það hefur mikið verið slúðrað um að Mascherano myndi fylgja þjálfaranum Rafa Benitez til félagsins en Benitez reyndi að gera lítið úr málinu í gær.

"Mascherano hefur hvorki rætt við forráðamenn Liverpool né stjórann Roy Hodgson síðan hann lauk keppni á HM. Hann hefur verið í fríi en er samt ánægður með að stórlið hafi áhuga á sér," sagði umbinn.

"Í fyrra var það Barcelona og nú er það Inter. Það er alger draumur fyrir hann að slíkt félag vilji fá hann í sínar raðir. Þetta er besta lið heims og margir landa hans hjá félaginu. Þess utan þjálfað af manni sem hann treystir."

Mascherano er samningsbundinn Liverpool til ársins 2012.

"Ef Mascherano réði ferðinnni tæki ekki langan tíma að semja við Inter. Hann er aftur á móti samningsbundinn og því þurfa félögin að komast að samkomulagi," bætti umbinn við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×