Enski boltinn

Úrvalsdeildarleikmaður borgar glæpaklíku

Elvar Geir Magnússon skrifar

Ónafngreindur leikmaður í ensku úrvalsdeildinni borgar glæpaklíku í London 15 þúsund pund á þriggja mánaða fresti. Það eru um 3 milljónir íslenskra króna miðað við núverandi gengi.

Þetta kom fram í útvarpsþætti á BBC í gær en í honum var fjallað um að fótboltamenn væru auðveld skotmörk fyrir skipulögð glæpasamtök.

Rætt var við meðlim glæpaklíku í London og sagði hann að leikmaður í ensku úrvalsdeildinni hefði alist upp með meðlimum klíkunnar. Nú þurfi hann að borga þeim þessa upphæð reglulega eða að öðrum kosti sé öryggi hans í hættu.

„Þetta er kannski ekki há upphæð fyrir leikmann í ensku úrvalsdeildinni en þetta eru samt miklir peningar," sagði meðlimurinn. Hann segir ekki duga fyrir leikmenn að ráða sér lífverði. „Við vitum hvar fjölskylda, vinir og fólk sem er nákomið þér býr. Það er ekki hægt að tryggja öryggi þeirra allra."

Í þættinum var einnig rætt við annan glæpamann sem sagði að leikmenn sem hefðu verið myndaðir á strippstöðum og vændishúsum hefðu borgað allt að 100 þúsund pund til að koma í veg fyrir að myndirnar yrðu seldar fjölmiðlum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×