Enski boltinn

Fabregas: Guardiola var hetjan mín

Henry Birgir Gunnarsson skrifar

Spænski landsliðsmaðurinn hjá Arsenal, Cesc Fabregas, heldur áfram að gefa Barcelona undir fótinn og nú hefur hann greint frá því að Pep Guardiola, þjálfari Barcelona, hafi verið hetjan hans í æsku.

"Guardiola hefur verið hetjan mín síðan ég var lítill strákur. Ég spilaði sömu stöðu og hann og leit upp til hans. Þjálfarinn minn gaf mér eitt sinn treyju sem hann hafði áritað," sagði Fabregas í útvarpsviðtali.

Fabregas er frá Barcelona og hann fór þangað til þess að jafna sig á meiðslum á síðustu leiktíð.

"Fólkið í Barcelona tók mér frábærlega þá tvo mánuði sem ég var þar. Það var ljúfur tími," sagði Fabregas sem ítrekar þó hversu vel honum sé við Arsene Wenger, stjóra Arsenal.

"Hann skiptir mig öllu. Hann er maðurinn sem setti traust sitt á mig. Án hans er ég ekki viss um að væri atvinnumaður í dag. Ég skulda honum mikið og þykir sérstaklega vænt um hann."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×