Innlent

Allir sammála um að leysa skuldavandann

Fulltrúar fjármálastofnana og talsmenn skuldugra heimila skiptust á skoðunum á samráðsfundi í Þjóðmenningarhúsinu í gærkvöldi. Hér heilsast Marínó G. Njálsson, stjórnarmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna, og Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans. Fréttablaðið/Vilhelm
Fulltrúar fjármálastofnana og talsmenn skuldugra heimila skiptust á skoðunum á samráðsfundi í Þjóðmenningarhúsinu í gærkvöldi. Hér heilsast Marínó G. Njálsson, stjórnarmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna, og Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans. Fréttablaðið/Vilhelm
Allir voru sammála um að taka þurfi á skuldavanda heimilanna en mikið bar á milli um aðferðirnar á samráðsfundi um skuldavanda heimilanna í Þjóðmenningarhúsinu í gærkvöldi. Fundinn sátu stjórnendur fjármálafyrirtækja, hagsmunagæsluaðilar almennings og þingmenn allra flokka.

„Þetta var mjög gagnlegur fundur, það hvessti vissulega mjög milli manna og var tekist hart á,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætis­ráðherra eftir fundinn. Eitt af stóru málunum á fundinum voru hugmyndir um flata niðurfærslu skulda fyrir almenning.

„Það er alveg ljóst að það ber töluvert á milli, en niðurstaða fundarins er sú að það er sameiginlegur vilji til að taka á skuldavanda heimilanna,“ segir Jóhanna.

Fundinn sátu fulltrúar viðskiptabankanna, Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna, auk ýmissa hagsmunagæsluaðila almennings. Hann sátu einnig þingmenn úr fjórum þingnefndum Alþingis auk fimm ráðherra.

Jóhanna segir að fundinn hafi setið allir þeir sem þurfi að koma að því að leysa skuldavanda almennings. Það sé skylda þessa hóps að finna lausn á skuldavanda heimilanna, og það verði gert.

„Við munum hittast aftur. Hvort sem við þurfum einn, tvo eða þrjá fundi til viðbótar munum við halda áfram að funda þar til komin er niðurstaða í þessu máli,“ segir Jóhanna.

Hópur sérfræðinga mun nú fara yfir þær tillögur sem fram komu á fundinum, og fljótlega verður boðað til annars fundar til að halda áfram með málið. Jóhanna segir ekki rétt að gefa fólki of miklar væntingar um flata niðurfellingu skulda, enda afar misjafnar skoðanir um mögulegar lausnir á vandanum.

„Þarna voru allir tilbúnir til að vinna saman og finna lausnir,“ segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans. Hann segir skoðanir skiptar um leiðirnar, en vinnunni verði haldið áfram.

Hann segir fulltrúa bankanna sammála um að taka verði á vandanum þar sem hann sé mestur. Það myndi verða þjóðarbúinu dýrt að fara í flata niðurfærslu skulda, og ekki gagnast þeim sem illa standi.

„Þetta var spjallfundur, menn voru að ræða stöðuna og mögulegar lausnir,“ segir Ásta H. Bragadóttir, settur framkvæmdastjóri Íbúðalánasjóðs. Hún segir að umræðurnar hafi verið líflegar, og sjónarmiðin misjöfn. Allir hafi þó verið sammála um að reyna að leysa vandann.

brjann@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×