Innlent

Fjórðungur ferða er til Þorlákshafnar

Herjólfur hefur þurft að sigla oftar en hundrað sinnum til Þorlákshafnar síðan Landeyjahöfn opnaði. fréttablaðið/óskar P. friðriksson
Herjólfur hefur þurft að sigla oftar en hundrað sinnum til Þorlákshafnar síðan Landeyjahöfn opnaði. fréttablaðið/óskar P. friðriksson
Herjólfur hefur siglt til og frá Þorlákshöfn í um 25 prósent skipta síðan Landeyjahöfn var tekin í notkun þann 21. júlí. Fargjald fyrir einn fullorðinn á milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar kostar þúsund krónur, en til og frá Þorlákshöfn er fargjaldið 2.660 krónur.

Guðmundur Pedersen, rekstrarstjóri Herjólfs, segir fargjöld farþega taka mið af því hvert er siglt hverju sinni. Gamla gjaldskráin á Þorlákshöfn gildi þegar siglt er þangað.

„Ef búið er að ganga frá greiðslunni verður því ekki breytt, sé bókað sama dag og er siglt,“ segir Guðmundur. „Fargjaldinu er þó breytt ef bókað er far fram í tímann og siglingaáætlun breytist á því tímabili.“

Einungis er hægt að bóka far til og frá Landeyjahöfn á heimasíðu Herjófs og þar kostar almennt fargjald þúsund krónur. Þær upplýsingar fengust hjá bókunarskrifstofu að fargjöld einstaklinga séu ekki hækkkuð nema til komi sérstök fyrirmæli frá Eimskipum, rekstraraðila Herjólfs, um breytingar á siglingaráætlunum og þar með fargjöldum.

Samkvæmt upplýsingum frá Siglingastofnun var Landeyjahöfn opin í gær, en Herjólfur sigldi engu að síður frá Þorlákshöfn.

„Ef skipstjóri telur að of mikil áhætta sé að sigla til Landeyjahafnar, þá er hún lokuð hvað Herjólf varðar,“ segir Guðmundur. „Það eru þrír þættir sem geta valdið því að skipstjóri telji höfnina ófæra, það er of mikill vindur, ekki nægjanlegt dýpi og of mikil ölduhæð.“

Ívar Gunnlaugsson, skipstjóri á Herjólfi, segir að ekki hafi verið óhætt að sigla inn í höfnina sökum öldugangs og straums.

„Ég hefði nú ekki kallað hana opna,“ segir Ívar. „Það er einungis Herjólfur sem siglir um höfnina, svo ég veit ekki alveg fyrir hverja hún væri opin ef við sigldum ekki um hana.“

Framkvæmdir við Landeyjahöfn hófust um haustið 2008 og hafa kostað rúma 4 milljarða króna. Kostnaður við dýpkun hafnarinnar eftir opnun er ekki ljós, en heildarkostnaður er enn undir upphaflegri kostnaðaráætlun. sunna@frettabladid.is


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×