Innlent

Ekkert hækkað síðan 2004

Segðu aaaa… Styrkur TR vegna tannréttinga væri 74 þúsund krónum hærri ef hann fylgdi verðlagsþróun.
Segðu aaaa… Styrkur TR vegna tannréttinga væri 74 þúsund krónum hærri ef hann fylgdi verðlagsþróun.
Endurgreiðslur Tryggingastofnunar ríkisins (TR) vegna tannréttinga barna og ungmenna hafa haldist óbreyttar síðan 2004.

Samkvæmt 11. grein reglugerðar um þátttöku TR í kostnaði við tannlækningar, veitir TR styrk upp á allt að 150 þúsund krónur vegna tannréttinga. Sú upphæð væri nú tæpar 224 þúsund krónur ef hún hefði fylgt verðlagsþróun, eða 74 þúsund krónum hærri.

Í reglugerðinni er miðað við sérstaka gjaldskrá heilbrigðisráðherra. Tannlæknar þurfa aftur á móti ekki að fylgja henni og geta verðlagt þjónustu sína að vild. Að sögn Reynis Jónssonar, tryggingatannlæknis hjá TR, eru gjaldskrár tannlækna allt að 150 prósent hærri en gjaldskrá ráðherra.

Að sögn Gísla Vilhjálmssonar tannréttingasérfræðings er algengt að tannréttingameðferð kosti á bilinu 700 þúsund til einnar milljónar króna.

Samkvæmt því getur styrkur TR numið 15 til 21,4 prósent af kostnaðinum, en væri 22,4 til 32 prósent af kostnaði ef styrkur TR fylgdi verðlagsvísitölu.

Að sögn Reynis er það heilbrigðisráðherra að ákveða hvort gjaldskrá eigi að vera tengd við verðlagsþróun eða ekki. „Hins vegar hefur ekki reynt á að semja um slíkar breytingar, því tannlæknar hafa ekki verið tilbúnir til samninga.“ - bs



Fleiri fréttir

Sjá meira


×