Innlent

Baldur krefst þess að kyrrsetning eigna hans verði ógild

Kyrrsetning á eignum Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, er fordæmalaus, tilefnislaus, óvenjuleg og óvægin. Þetta segir lögmaður hans sem krafðist þess í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag að kyrrsetningin yrði ógild.

Þann 13. nóvember síðastliðinn kyrrsetti Sýslumaðurinn í Reykjavík, að beiðni embættis sérstaks saksóknara, innstæður á tveimur bankareikningum Baldurs Guðlaugssonar í Nýja Kaupþingi. Á reikningunum eru 193 milljónir króna. Hagnaðurinn af sölu Baldurs á hlutabréfum í gamla Landsbankanum sem Baldur seldi þan 17. og 18 september árið 2008, korteri fyrir hrun. Baldur liggur undir grun um að hafa nýtt sér innherjaupplýsingar við söluna en hann var þá ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu.

Lögmaður Baldurs, Arnar Þór Stefánsson, sagði meðal annars í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun að kyrrsetningin væri fordæmalaus og óvægin.

Hann benti á að mál Baldurs uppfyllti engin af þeim þremur skilyrðum sem séu fyrir kyrrsetningu en þau eru ef hætta er á að eignum sé komið undan, þær glatist eða þær rýrni.

Arnar benti á að Baldur hafi ekki og ætli ekki að hreyfa við söluhagnaði peningabréfanna á meðan rannsókn málsins stendur og hann eigi ekki bankareikninga erlendis.

Björn Þorvaldsson, fulltrúi sérstaks saksóknara, krefst frávísunar og benti á að það hafi verið sýslumaður sem hafi kyrrsett eignir Baldurs. Kyrrsetningin sé vægasta aðgerð sem hægt sé að grípa til enda liggi peningarnir á bankabók Baldurs á fullum vöxtum.

Þá benti Björn einnig á að eignir hafi verið kyrrsettar í sambærilegum málum án athugasemda og vísaði meðal annars til fjársvikamálsins í Tryggingastofnum ríkisisns.

Baldur Guðlaugsson hefur ekki aðeins krafist að kyrrsetning eigna hans verði ógild, því hann hefur líka krafist þess að rannsókn sérstaks saksóknara á meintum innherjaviðskiptum hans verði felld niður. Sú krafa er komin til Hæstaréttar. En niðurstaða í báðum þessum málum mun liggja fyrir innan fárra vikna.


















Fleiri fréttir

Sjá meira


×