Innlent

Mikil vinna lögð í að uppræta spillingu innan fjármálakerfisins

Gylfi Magnússon.
Gylfi Magnússon. Mynd/Anton Brink

Viðskiptaráðherra telur nær alveg víst að við rannsókn á bankahruninu komi í ljós að menn hafi brotið lög. Mikil vinna hafi verið lögð í að uppræta spillingu innan fjármálakerfisins.

Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra var spurður að því í viðtali á Bylgjunni hvort hann teldi að spilling hefði ríkt innan bankakerfisins í tíð útrásarinnar. Hann sagðist ekki geta fullyrt um það en það væri ljóst að þar hefði ríkt gífurlegur glannaskapur og dómgreindarskortur. Dómgreindaleysið hafi reyndar ekki aðeins verið bundið við fjármálakerfið heldur líka eftirlitsstofnanir.

„Ég tel alveg víst að út af þessum rannsóknum hjá sérstökum saksóknara, Fjármálaeftirlitinu og öðrum slíkum aðilum muni því miður koma í ljós að það fóru ýmsir yfir strikið. Ekki bara á gráu svæði heldur beinlínis brutu lög. Það er auðvitað spilling og það á að refsa mönnum fyrir það en það er ekki mitt að skera úr því nákvæmlega hverjir gerðu hvað og hvernig á að refsa þeim," segir Gylfi.

Í sama viðtali var hann einnig spurður að því hvort líðandi væri að Baldvin Valtýsson, sem stýrði Landsbankanum fyrir hrun eða á þeim tíma sem bankinn bauð upp á Icesave-reikningana, hefði enn yfirumsjón í bankanum en nú á vegum skilanefndar Landsbankans. En það kemur fram í DV í dag.

Gylfi tók fram að hann hefði ekki náð að kynna sér innihald greinarinnar nákvæmlega og þyrfti því að hafa fyrirvara á svari sínu.

 

„Ég vil þó segja að það er auðvitað ólíðandi fyrir þá sem sjá nú fram á að borga þennan Icesave-reikning, ef að þeir sem báru ábyrgð á honum, og nú er ég ekki að fullyrða að þessi maður geri það ég þekki ekki til mála, en almennt að þeir sem báru ábyrgð á þessari hryllilegu útrás  Landsbankans sem við sjáum nú afleiðingarnar af eiga nú að fara leika einhver lykilhlutverk í hreinsa upp og fá það ríkulega launað," segir Gylfi.

Hann var þá spurður um hvort verið væri að vinna nægilega vel að því að uppræta spillingu innan fjármálakerfisins. Því svaraði Gylfi þannig til að það væri verið að gera bókstaflega allt sem hægt væri til þess.

Þá var Gylfi minntur á að skilanefndin væri á hans ábyrgð. Hann benti þá á að skilanefndin væri skipuð af Fjármálaeftirlitinu hann hefði ekki beint boðvald yfir því en fjármálaeftirlitið hefði reyndar ekki heldur boðvald yfir skilanefndinni. Hann beri þó á ábyrgð á málaflokknum í heils og ætli sem ráðherra og ætla að afla sér upplýsinga um málið, fyrr geti hann ekki lofað aðgerðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×