Innlent

Jóhanna hóflega bjartsýn

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, er hóflega bjartsýn á að hægt verði að ná betri samningi við Breta og Hollendinga um Icesave. Ríkisstjórnin vonast eftir svari frá Bretum og Hollendingum á næstu dögum um hvort hægt verði að ganga til samningaviðræðna á ný.

Ríkisstjórnin fundaði með oddvitum stjórnarandstöðunnar í gær til að reyna ná þverpólitískri samstöðu um Icesave. Nefnd sem skipuð verður fulltrúum allra flokka mun hafa yfirumsjón með samningaviðræðum ef Bretar og Hollendingar fallast á að taka þær upp að nýju.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, var nokkuð bjartsýnn á að hægt verði að taka upp viðræður að nýju eftir fundinn með ríkisstjórninni í gær.

„Við skulum gefa okkur að þær séu ágætar. Málið er í algjörum hnút eins og stendur. Ef ekkert gerist þá fer fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Eins og sakir standa virðist eins og íslenska þjóðin sé á móti þessum ósanngjörnum samningum. Þannig að ég gef mér það að allir þeir sem hafa komið að þessu máli sjái það að það borgar sig fyrir alla að koma að málinu á breyttum forsendum," segir Bjarni.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokks, telur eðlilegt að fara fyrst í þjóðaratkvæðagreiðslu áður en gengið verður til samningaviðræðna á ný. Flokkarnir hafa þó enn ekki komið sér saman leiðir í þessu máli. Hann segir að enn sé rætt um að fá utanaðkomandi sáttasemjara. „Nei það hefur ekki verið gert ennþá," segir Sigmundur aðspurður hvort einhver nöfn hafi verið nefnd í því samhengi.

Forsætisráðherra vonast til þess að fá svar frá Bretum og Hollendingum á næstu dögum. „Menn eru sammála um að reyna ná samstöðu í málinu og koma fram sem ein heild gagnvart Bretum og Hollendinum ef að sú staða opnast," segir Jóhanna. Hún er hóflega bjartsýn að hægt sé að ná betri samningi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×