Innlent

Umboðsmaður ætlar að fylgjast með kynningarefni Icesave-kosninga

Róbert Spanó gegnir um þessar mundir embætti umboðsmanns Alþingis.
Róbert Spanó gegnir um þessar mundir embætti umboðsmanns Alþingis.

Umboðsmaður Alþingis ætlar ekki að hefja sérstaka athugun á því hvort kynningarefni sem gert er af stjórnvöldum í tengslum við fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu í Icesave-málinu sé í samræmi við réttmætisreglu og að þar sé gætt að því að öll framsetning sé eins hlutlæg og kostur er. Umboðsmaður mun hins vegar fylgjast með því áð næstu dögum og vikum hvernig kynningarstarfsemi stjórnvalda verði háttað í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar.

Það var Samband ungra sjálfstæðismanna sem óskaði eftir áliti umboðsmanns á þessu atriði en í fyrirspurninni er vísað til ummæla Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra sem sagði í samtali við fréttastofu Stöðvar 2 að „kostnaður vegna kynningar á rökstuðningi ríkisstjórnarinnar verði greiddur úr ríkissjóðim, umfram það óháða kynningarefni sem kostað er þaðan sömuleiðis."

Umboðsmaður segist hinsvegar ekki vita til þess að til standi að hefja slíka kynningarherferð, eða „hvort ákvarðanir hafi verið teknar af hálfu stjórnvalda um hvort og þá hvernig slíkt kynningarefni muni líta út eða hvaðan fjármunir til að fjármagna það verði fengnir.

„Ég tel því að svo stöddu ekki ástæðu til að hefja athugun á þessu atriði að eigin frumkvæði með vísan til 5. gr. laga nr. 85/1997, en mun í samræmi við þau almennu sjónarmið sem rakin eru í kafla II hér að framan, fylgjast með því á næstu dögum og vikum hvort og þá hvernig háttað verði kynningarstarfsemi stjórnvalda í aðdraganda þjóðaratkvæðagreiðslunnar 6. mars nk. Með þetta í huga hef ég ákveðið að senda forsætisráðherra og fjármálaráðherra afrit af bréfi þessu til upplýsingar," segir umboðsmaður Alþingis að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×