Innlent

Kosningar 2010: Tvö ný framboð í Kópavogi og eitt í Garðabæ

Frambjóðendur Næst besta flokksins, Erla Karlsdóttir, Hjálmar Hjálmarsson og Benedikt Nikulás Anes Ketilsson.
Frambjóðendur Næst besta flokksins, Erla Karlsdóttir, Hjálmar Hjálmarsson og Benedikt Nikulás Anes Ketilsson.

Tvö ný framboð litu dagsins ljós í Kópavogi í dag en frestur til að lýsa yfir framboði til sveitarstjórnakosninga rann út í dag. Eitt framboð kom einnig fram í Garðabæ.

Næst besti flokkurinn hefur tilkynnt um framboð í Kópavogi en oddvitasætið skipar Hjálmar Hjálmarsson leikari. „Undanfarin misseri hafa verið erfið fyrir íbúa Kópavogs," segir í tilkynningu frá framboðinu. „Átök innan flokka bæjarstjórnar sem og umræða og framkoma bæjarstjórnamanna hefur verið með þeim hætti að bæjarbúum hefur þótt miður. Íbúar Kópavogs eiga ekki að þurfa sætta sig við það umsátur sem ríkt hefur í bænum. Því kom hópur saman á dögunum og ræddi möguleika á nýju framboði. Fljótt náðist samkomulag þessa hóps og stofnaður var Næst besti flokkurinn," segir ennfremur en framboðið var samþykkt á fundi í gær og mun bjóða fram undir listabókstafnum X.

Listi Kópabogsbúa hefur einnig litið dagsljósið en oddviti þar á bæ er Rannveig H. Ásgeirsdóttir framkvæmdastjóri. Á meðal stefnumála flokksins er ráðning faglegs bæjarstjóra, að bæjarfulltrúar sitji í mesta lagi tvö kjörtímabil, farið verði eftir siðareglum Kópavogs, stofnun hverfaráða sem funda reglulega í grunnskólum sinna hverfa að lágmarki einu sinni á ári auk þess sem framboðið vill vinna að því að persónukjör verði að veruleika.

Í Garðabæ hefur Framboð fólksins í bænum verið kynnt til leiks. Frambjóðendur listans eiga það sameiginlegt að hafa áhuga á málefnum og velferð Garðabæjar og vilja efla skapandi og gagnrýna umræðu um bæjarmálin. Umræðu sem byggð er á þeirri sjálfsögðu kröfu að gagnsæi og gott siðferði skuli haft að leiðarljósi í íslenskri stjórnsýslu með virkri þátttöku íbúanna. Ragný Þóra Guðjohnsen, lögfræðingur og MA í uppeldis- og menntunarfræðum, leiðir listann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×