Innlent

Dómsmál gegn Svandísi þingfest í dag

Flóahreppur krefst þess að ákvörðun ráðherra, um að hafna skipulagi Urriðafossvirkjunar, verði dæmd ógild, og óskar jafnframt eftir flýtimeðferð.
Flóahreppur krefst þess að ákvörðun ráðherra, um að hafna skipulagi Urriðafossvirkjunar, verði dæmd ógild, og óskar jafnframt eftir flýtimeðferð.

Dómsmál sem Flóahreppur höfðar gegn Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Flóahreppur krefst þess að ákvörðun ráðherra, um að hafna skipulagi Urriðafossvirkjunar, verði dæmd ógild, og óskar jafnframt eftir flýtimeðferð.

Það var í lok janúarmánaðar sem Svandís tilkynnti Flóahreppi að hún hygðist synja staðfestingar þeim hluta aðalskipulags Flóahrepps sem sneri að Urriðafossvirkjun og voru rök ráðherrans þau að Landsvirkjun hefði greitt hreppnum fyrir skipulagsvinnu.

Óskar Sigurðsson hæstaréttarlögmaður segir hins vegar í stefnu sinni fyrir hönd Flóahrepps að ákvörðun ráðherrans sé haldin formlegum og efnislegum annmörkum og sé óframkvæmanleg. Hún eigi sér hvorki stoð í skipulags- og byggingarlögum, - lög banni ekki framkvæmdaraðila að greiða hluta af kostnaði vegna aðalskipulagsvinnu. Þá hafi ráðherra brotið gegn lögmæltum andmæla- og upplýsingarétti Flóahrepps en einnig brotið jafnræðisreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

Óskað er flýtimeðferðar þar sem ákvörðun ráðherrans komi ekki aðeins í veg fyrir Urriðafossvirkjun heldur allar aðrar framkvæmdir í sveitarfélaginu auk þess sem hún hafi í för með sér gjörbreytingu á starfsháttum sveitarstjórna um land allt. Því hafi það verulega almenna þýðingu að fá niðurstöðu sem fyrst fyrir dómstólum um hvort lagatúlkun ráðherrans standist.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×