Innlent

Sóley: Gengið of nærri grunnþjónustunni

Mynd/Valgarður Gíslason
„Niðurstaða ársreiknings Reykjavíkurborgar er árangur af niðurskurði, þar sem gengið hefur verið allt of nærri grunnþjónustu sveitarfélagsins gagnvart íbúum. Athyglisverðast er þó að skoða stöðu B-hlutafyrirtækja borgarinnar, en þau sinna grunnþjónustu sem skiptir sköpum fyrir alla borgarbúa. Hæst bera þar Orkuveita Reykjavíkur, Félagsbústaðir, Strætó, Sorpa og Slökkviliðið - en staða þeirra grafalvarleg," segir Sóley Tómasdóttir, oddviti VG í Reykjavík, í tilkynningu. Ársreikningur Reykjavíkurborgar var lagður fram í borgarstjórn í dag.

Sóley segir að staða sveitarfélags sem hafi komið hita- og vatnsveitu, almenningssamgöngum, félagslega íbúðarkerfinu og slökkviliðinu í slík vandræði geti ekki verið góð.

„Vinstri græn hafa ítrekað farið fram á endurskoðun og greiningu á stöðu mála, en allt kemur fyrir ekki. Afskiptaleysisstefna frjálshyggjunnar, stefna meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borgarstjórn Reykjavíkur hefur verið sú að aðhafast ekkert. Að halda því svo fram gagnvart almenningi að árangur hafi náðst og að hér sé um sigur að ræða fyrir borgina er ámátlegt af hálfu meirihlutans," segir Sóley.


Tengdar fréttir

Borgarsjóður hallalaus og veruleg umskipti í rekstri

Ársreikningur Reykjavíkurborgar fyrir árið 2009 er lagður fram á borgarstjórnarfundi í dag en samkvæmt honum var borgarsjóður rekinn hallalaus og veruleg umskipti urðu til hins betra í rekstri samstæðunnar. Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri segir þetta mikil og góð tíðindi fyrir Reykvíkinga.

Dagur: Slæm staða OR varpar skugga á ársreikninginn

Dagur B. Eggertsson oddviti Samfylkingarinnar í borgarstjórn segir að slæm staða Orkuveitunnar og aðgerðarleysi í fjármálum fyrirtækisins varpi skugga á annars vel viðundandi stöðu borgarsjóðs en ársreikningur Reykjavíkurborgar var lagður fram í borgarstjórn í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×