Innlent

Varðskipið Ægir gleður börn í Senegal

Varðskipið Ægir er á leið til Senegal.
Varðskipið Ægir er á leið til Senegal. MYND/Guðmundur St. Valdimarsson

Varðskipið Ægir er á leið til Senegal á morgun þar sem stendur til að taka þátt í eftirliti með Frontex, Landamærastofnun Evrópu sem Ísland er aðili að í gegnum Schengen samstarfið.

Í tilkynningu frá Gæslunni segir að sú hugmynd hafi vaknað hvort hægt væri að styrkja hjálparsamtök í Senegal með því að flytja til þeirra vörur með varðskipinu. „Eftir smá eftirgrennslan kom í ljós að ABC rekur barnaskóla í höfuðborg Senegal, Dakar. Skólinn er fyrir 149 fátæk börn á aldrinum 3ja til 7 ára en einnig er rekið athvarf fyrir götudrengi. Á hverjum degi koma 30-50 börn í athvarfið þar sem þau fá mat, fara í sturtu, þvo fötin sín, leika sér og síðast en ekki síst fá þau kennslu. Enn fremur er rekinn fótboltaskóli einu sinni í viku fyrir stráka á aldrinum 10 - 16 ára."

Á vegum ABC Barnahjálpar hefur staðið yfir söfnun meðal stuðningsmanna og hefur einkum verið óskað eftir pappír, stílabókum, litum, blýöntum, pennum, ýmis konar borðspilum, leikföngum og íþróttavörum fyrir börnin. Einnig vantar hillur, skólaborð og stóla fyrir börnin.

Auk þess að leita til stuðningsmanna hefur ABC Barnahjálp og Landhelgisgæslan vakið athygli nokkurra fyrirtækja á söfnuninni og fengið mjög góðar undirtektir.

Varðskipið Ægir mun láta úr höfn í Reykjavík á morgun og vonandi með töluvert af áhöldum og vörum til stuðnings krökkunum í barnaskóla ABC í Senegal.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×