Íslenski boltinn

Bjarni: Verðum að hysja upp um okkur buxurnar

Kristinn Páll Teitsson skrifar

„Upphaf seinni hálfleiksins var mjög ljótt hjá okkur og það kostaði okkur þetta stóra tap. Einbeitingarleysi, mistök sem eiga ekki að sjást hjá mönnum í efstu deild og við vorum okkur sjálfum verstir," sagði Bjarni Jóhannsson þjálfari Stjörnunnar eftir 4-0 tapleik gegn toppliði Blika.

„Við fáum á okkur tvö víti, annað var víti en mér fannst seinna heldur ódýrt. Við verðum núna bara að hreinsa andrúmsloftið og laga leik okkar, mörk leiksins komu ekkert eftir stórkostleg spil heldur ótrúleg mistök á eigin vallarhelmingi. "

Fyrri hálfleikur var markalaus en Blikar buðu upp á veislu í seinni hálfleik, þeir skoruðu fjögur mörk og þar af tvö fljótlega eftir að seinni hálfleikur byrjaði.

„Við lögðum upp með að reyna að skora strax í byrjun og það gekk ekki, það munaði litlu en við náðum því ekki fram. Svo missum við Ellert út og það riðlar leik okkar en það er engin afsölun fyrir þessari spilamennsku og þessum úrslitum "

Blikarnir færa sig með þessum sigri á toppinn og var Bjarni mjög hrifinn af leik þeirra.

„Þetta var frábærlega spilað hjá Blikunum og þeir áttu sigurinn svo sannarlega skilið, þetta er eitt allra besta lið sem er að spila á landinu í dag. Þeir eru löngu hættir að vera efnilegir og eru orðnir mjög góðir, núna er bara að sjá hvort þeir haldi þessu áfram"

Stjarnan situr áfram í sjöunda sæti eftir þennan leik og heldur slæma útivallagengi þeirra áfram.

„Mótið er hálfnað núna og það er að koma í ljós hvernig deildin mun skiptast, við erum í neðri hlutanum en við verðum bara að hysja upp um okkur buxurnar og mæta stemmdir í næstu umferð. Maður hefur auðvitað smá áhyggjur af þessu útvallagengi en fólk gleymir því að við fórum í Hafnarfjörðinn og unnum, það eru ekki mörg lið sem gera það. Það er hinsvegar vonandi að við hressumst bara, bæði á úti- sem og heimavelli" sagði Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×