Innlent

Vill að ríkið hætti gæluverkefnum

Lóa Pind Aldísardóttir skrifar
Kristján Þór Júlíusson vill fresta stofnun Byggingarstofnunar, Fjölmiðlastofu og draga úr íslenskri friðargæslu. Mynd/ Stefán.
Kristján Þór Júlíusson vill fresta stofnun Byggingarstofnunar, Fjölmiðlastofu og draga úr íslenskri friðargæslu. Mynd/ Stefán.
Það mætti draga úr högginu á heilbrigðisþjónustu landsbyggðarinnar með því að skera niður gæluverkefni í stefnulausu fjárlagafrumvarpi, að mati Kristján Þórs Júlíussonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Hann telur til dæmis einboðið að fresta stofnun Byggingarstofnunar, Fjölmiðlastofu og draga úr íslenskri friðargæslu í þessu árferði.

Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sakar ríkisstjórnina um að skapa andstyggilegan vítahring með grimmúðlegum niðurskurði á landsbyggðinni í fjárlagafrumvarpinu. Hann telur að með því að forgangsraða og fresta nýjum útgjöldum megi milda niðurskurðarhöggið á heilbrigðisþjónstu á landsbyggðinni, en fyrirhugaður niðurskurður hefur eins og kunnugt er vakið hörð viðbrögð og mótmæli fólks um allt land.

Í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag spyr Kristján meðal annars hvers vegna þurfi að reka Íslandsstofu og Ferðamálastofu í tveimur stofnunum upp á rúmar 800 milljónir, hvort Íslendingar eigi að verja 115 milljónum til að halda úti íslenskri friðargæslu.

Eins hvort bráðnauðsynlegt sé að eyða yfir 800 milljónum króna í kaup á nýjum sendiherrabústað í London á þessu ári - og að kaupa nýjan sendiherrabústað í New York á næsta ári. Samanlagt leggur hann fram ellefu spurningar um áætluð útgjöld í fjárlagafrumvarpinu - sem hann setur spurningamerki við og telur að frekar eigi að láta niðurskurðarhnífinn bitna á gæluverkefnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×