Innlent

Óvíst um framhald viðræðna

Formenn stjórnarflokkanna telja að samningaviðræður við Breta og Hollendinga um lausn Icesave-málsins eigi að halda áfram þar sem frá var horfið fyrir helgi. Forystumenn stjórnarandstöðunnar segja hins vegar að leggjast þurfi yfir samningsmarkmiðin að nýju í ljósi niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar áður en viðræðurnar geta haldið áfram.

„Það þarf að vera einhver samhljómur hjá mönnum um það hvað er ásættanlegt sem niðurstaða í málinu ef til viðræðna kemur," segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins. „Það er ekkert sjálfgefið, eftir þessa þjóðaratkvæðagreiðslu, að menn sjái hlutina með sömu augum."

Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Hreyfingarinnar, tekur í sama streng og segir samningsforsendur gjörbreyttar. „Fyrir mér gerir samninganefndin ekki eitt eða neitt í mínu umboði fyrr en ég er búin að ræða við þetta fólk. Ef samninganefndin á að halda áfram eins og ekkert hafi í skorist mun ég segja mig frá þessu."

Steingrímur J. Sigfússon reiknar með því að kalla til formenn allra flokka í dag til viðræðna um framhaldið. Einnig mun hann ræða við formann íslensku samninganefndarinnar um næstu skref. Þá verður staðan að lokinni atkvæðagreiðslu rædd á þingi í dag.

„Ég túlka orð stjórnarandstöðunnar ekki með þeim hætti að samstaðan um frekari samningaviðræður sé brostin. Ég vil allavega ekki gefa mér það fyrr en á reynir," segir Steingrímur. „Við byrjum að sjálfsögðu á því að láta á það reyna hvort ekki verður haldið áfram þar sem frá var horfið. Ég trúi því ekki að menn ætli að hlaupa frá þessu núna því ég sé ekki í grófum dráttum hvers vegna það ætti að vera."

Jóhanna Sigurðardóttir forsætis­ráðherra er sama sinnis og segir það nauðsynlegt „að taka sem fyrst upp samningaviðræðurnar þar sem frá var horfið".

„Nei, ég íhugaði ekki afsögn á neinum tímapunkti af alvöru," segir Jóhanna um orð Steingríms í útvarpsþættinum Sprengisandi í gær en hann sagðist hafa íhugað afsögn eftir að Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, vísaði lögunum til þjóðarinnar í janúar. „Auðvitað kom þetta til tals á milli okkar Steingríms. En hann vill taka slaginn eins og ég."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×