Enski boltinn

Wenger segir að hann þurfi að styrkja vörnina hjá Arsenal

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, gat ekki leynt vonbrigðum sínum með varnarleikinn á móti Barcelona.
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, gat ekki leynt vonbrigðum sínum með varnarleikinn á móti Barcelona. Mynd/AP
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, hefur gefið það út að hann ætli sér að styrkja vörn liðsins fyrir næsta tímabil þar sem frammistaða varnarmanna liðsins á nýloknu tímabili hafi aðeins verið í meðallagi. Arsenal hefur nú ekki unnið titil í fimm ár en hefur á þessum tíma sjaldan verið nærri meistaratitlinum en í vetur.

„Ef við skiptum tímabilinu í tvennt þá hefur sóknin verið mjög góð en vörnin var bara í meðallagi. Þegar þú færð á þig 40 mörk þá vinnur þú engan titil. Ég ætla að reyna að leiðrétta það," sagði Wenger.

„Ég ætla að halda viðhald styrk liðs sóknarlega og reyna að styrkja liðið varnarlega," segir Wenger. Norðmaðurinn Brede Hangeland hjá Fulham og Senegal-maðurinn Pape Diakhaté hjá St Etienne eru tveir varnarmenn sem hafa verið orðaðir við Arsenal.

„Þegar menn eru svona nálægt því að vinna titilinn þá eru menn vissulega svekktir yfir niðurstöðunni en ég er stoltur af liðsandanum og hugarfari leikmanna minna á þessu tímabili," sagði Wenger.

„Það vantar ekki mikið í viðbót í liðið þegar við erum svona nálægt þessu en við töpuðum stóru leikjunum. Við eigum góða möguleika á því að koma sterkir til baka og vinna þetta á næsta ári. Við verðum að halda stöðugleikanum og koma enn sterkari á næsta tímabili,"sagði Wenger að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×