Íslenski boltinn

Víkingar úr Ólafsvík í undanúrslit eftir sigur á Stjörnunni í vítakeppni

Víkingar úr Ólafsvík urðu í kvöld fyrsta C-deildarfélagið í sögunni til þess að komast í undanúrslit bikarkeppninnar eftir 5-4 sigur í vítakeppni í ótrúlegum fótboltaleik í Ólafsvík.

Þessi leikur bauð upp á allt sem fótboltaleikur gat boðið upp og dramatíkin var engu lík, bæði í leiknum sjálfum sem og í vítaspyrnukeppninni.

Einar Hjörleifsson, markvörður Víkinga, var hetja sinna manna með því að verja tvær vítaspyrnur í vítakeppninni en hinn tvítugi gamli Þorsteinn Már Ragnarsson tryggði Víkingi sigurinn í vítakeppninni.

Heiðar Atli Emilsson kom Víkingi í 1-0 strax á 10. mínútu og fram eftir leik komust Stjörnumenn lítið áleiðis gegn vinnusömum og baráttuglöðum Ólafsvíkingum.

Edin Beslija virtist vera að koma Víkingum í undanúrslitin þegar hann kom liðinu í 2-0 á 86. mínútu en Bjarki Páll Eysteinsson og Ellert Hreinsson náðu að tryggja Garðabæingum framlengingu.

Heiðar Atli er í láni frá Stjörnunni alveg eins og Sindri Már Sigurþórsson sem kom Víkingi í 3-2 í framlengingunni en Arnar Már Björgvinsson jafnaði hinsvegar leikinn í 3-3 átta mínútum síðar og þannig stóð í leikslok. Það varð því að grípa til vítaspyrnukeppni.

Vítakeppnin: 0-1 Baldvin Sturluson, 1-1 Artjom Gonchar, 1-2 Bjarki Páll Eysteinsson, 2-2 Brynjar Gauti Guðjónsson, 2-3 Halldór Orri Björnsson, 3-3 Brynjar Kristmundsson, 3-4 Arnar Már Björgvinsson, Tomasz Luba (Bjarni Þórður Halldórsson ver), Ellert Hreinsson (Einar Hjörleifsson ver), 4-4 Edin Beslija. (4-4, bráðabani). Jóhann Laxdal (Einar ver), 5-4 Þorsteinn Már Ragnarsson. 

Leiknum var lýst beint á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins. Til þess að skoða lýsinguna þarf að smella hér: Víkingur Ó. - Stjarnan








Fleiri fréttir

Sjá meira


×