Íslenski boltinn

Reynir: Betra liðið vann í kvöld

Elvar Geir Magnússon skrifar
Reynir Leósson, varnarmaður Vals.
Reynir Leósson, varnarmaður Vals.

Valsmenn eru fallnir úr bikarkeppninni eftir 3-1 tap gegn erkifjendunum í Fram í kvöld. Mörk Framara komu öll á átta mínútna kafla í upphafi seinni hálfleiks.

Valsliðið hefur verið að spila illa í síðustu leikjum og leikurinn í kvöld ákveðið framhald af því. „Við höfum ekki verið góðir í síðustu leikjum þó við höfum ekki verið að tapa," sagði Reynir Leósson, varnarmaður Vals, eftir leik í kvöld.

„Við spiluðum mjög vel þegar við mættum Frömurum í deildinni um daginn og náðum þá jafntefli en betra liðið vann tvímælalaust í þessari viðureign. Við mættum ekki tilbúnir í seinni hálfleikinn og þeir voru miklu grimmari og ákveðnari. Þegar við mætum því ekki eigum við ekki skilið að fara áfram í bikarkeppninni."

„Ég vil ekki fara í neinar krísupælingar. Við höfum verið á ágætis róli í sumar og við verðum að halda áfram að vinna í okkar liði og halda áfram að bæta okkur. Það er nóg eftir af þessu sumri og markmið okkar hafa ekkert breyst. Við ætlum að búa til góða liðsheild eftir afleitt sumar í fyrra. Mér finnst við vera á góðri leið með þau markmið," sagði Reynir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×