Innlent

Árni Páll hótar lánafyrirtækjunum löggjöf

Mynd/Anton Brink
Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, segir að ef ekki næst samkomulag við eignaleigufyrirtækin um hvernig leysa eigi skuldavanda þeirra sem tóku bílalán í erlendri mynt þá verði löggjöf beitt til að leysa vandann. Árni Páll sagði þetta í þættinum Sprengisandur á Bylgjunni í morgun.

Bílalán landsmanna snarhækkuðu við hrun krónunnar. „Við höfum verið að reyna að ná að gera þetta í sátt við félögin en það hefur alltaf legið ljóst fyrir að okkar hálfu ef að það næst ekki þá komum við með löggjöf sem gerir fólki kleift að komast út úr þessum myntkörfulánum," sagði Árni Páll og bætti við lánin verði að vera í einhverju samræmi við það ef þau hefðu verið tekin í íslenskum krónum.

Lánafyrirtækin tóku ekki vel í hugmyndir stjórnvalda þegar þær voru kynntar í síðasta mánuði og óttuðust fjárhagslegt tjón.

„Við erum komin með útfærða aðferðafræði og nú stendur þetta eiginlega á vilja fyrirtækja til að spila með. Þetta hlýtur að skýrast á næstu dögum ef að hann verður ekki fyrir hendi þá förum við þetta í löggjöf," sagði Árni Páll.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×