Íslenski boltinn

Lars Ivar meiddist eftir samstuð - Óljóst hversu lengi hann verður frá

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Lars Ivar.
Lars Ivar. Fréttablaðið/Baldur

Lars Ivar Molskred er ekki illa meiddur en óljóst er hversu lengi hann verður frá vegna meiðsla. Þessi 32 ára gamli markmaður KR fór meiddur af velli í undanúrslitum Deildabikarsins gegn Val í gær.

Lars lenti í samstuði við Atla Svein Þórarinsson og þeir sem voru á vellinum heyrðu öskrin langar leiðir. Hann reyndi að halda áfram en eftir að hafa gengið um vítateiginn öskraði hann aftur og fékk svo skiptingu útaf.

Þórður Ingason kom í markið í hans stað.

Lars fékk spark í hægra hnéð en hann er örvfættur.

Logi Ólafsson, þjálfari KR, sagði við Vísi í dag að Lars hefði borið sig vel á lyftingaæfingu í morgun en hann fer í nánari skoðun seinna í dag.

"Við vonum að hann hafi ekki skaddað nein liðbönd eða eitthvað slíkt. Eins og staðan er núna er erfitt að meta hversu lengi hann verður frá,"sagði Logi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×